„Þú getur rétt ímyndað þér hvað þetta er mikill léttir,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari eftir fréttir dagsins um afléttingar á takmörkunum vegna Covid-19. „Ég er kominn í gírinn og hlakka mikið til að taka þátt í þessari gleðisprengju með þjóðinni.“
„Við erum búin að vera með sveitann skallann að undirbúa bæjarhátíðir í allt sumar. Að fá þessar fréttir núna korter í allar hátíðirnar er gríðarlegur léttir,“ segir Páll Óskar og bætir við að nú hlakki hann mikið til að fara að spila fyrir fólk af holdi og blóði á dansgólfi. Hann segir verið komið eitt og hálft ár síðan hann var með almennilegt dansiball.
Páll Óskar segist þó ekki hafa setið auðum höndum á meðan Covid stóð yfir. „Ég var svo lánssamur að fá alls konar lítil gigg. Stundum var maður til dæmis á stofugólfinu í heimahúsum, þannig að ég gat persónulega bjargað mér. Núna er lífið loksins orðið eðlilegt,“ segir Páll Óskar og nefnir að loksins sé hægt að fara skipuleggja stóra viðburði í frið og ró.
Páll Óskar nefnir sérstaklega að afléttingarnar séu mikill léttir fyrir skipuleggjanda Hinsegin daga. „Þetta þýðir það að við getum verið með Gleðigöngu og allan pakkann 7. ágúst.“
Hann segir að nú þegar séu allir laugardagar bókaðir hjá honum fram að áramótum en eitthvað eigi eftir að bóka á föstudögum og skólaböllin sem séu haldin á virkum dögum ásamt einkaveislum inn á milli.
Páll Óskar nefnir að 50 ára afmælistónleikar hans sem átti að halda í mars 2020 séu nú komnir aftur á dagskrá. „Tónleikarnir verða haldnir í Háskólabíó 9., 10. og 11. september. Nú höldum við bara áfram að undirbúa þá tónleika og gera þá enn betri með flottum leynigestum.“
Hann segir það hafi verið furðulegt að vera með tilbúna stórtónleika í höndunum sem þurfti að bremsa með svo snögglega. „Við erum þó bara að gera gott show betra.“