Uppistand, drag, sirkus á Reykjavík Fringe Festival

Hinn verðlaunaði uppistandari Donal Vaughan frá Írlandi tekur þátt í …
Hinn verðlaunaði uppistandari Donal Vaughan frá Írlandi tekur þátt í hátíðinni

Alþjóðlega jaðarlistahátín Reykjavík Fringe Festival verður haldin 3.-11. júlí næstkomandi. Er þetta í fjórða sinn sem hátíðin verður haldin hérlendis, en þar má finna um 70 verk, sýnd meira en 150 sinnum. Er þetta ein af fyrstu listahátíðum sem verða haldnar eftir miklar afléttingar á samkomufjölda, en stærsti sýningarstaður hátíðarinnar tekur 200 manns í sæti svo allt verður vel innan marka.

Verkin eru bæði innlend og erlend og spanna allt frá myndlistarsýningum, uppistandi, dansverkum og leikhúsi yfir í drag, kabarett, sirkus, hjólaskautapartí og gerð götulistaverks. Það er eitthvað í boði fyrir fólk á öllum aldri, þ.á m. frí Youth Fringe-námskeið fyrir unglinga 13-19 ára.

Hinn 3. júlí fer allt á fullt. Fyrra opnunarhóf af tveimur fer fram í Gallerí Fold milli kl. 14 og 16, þar sem kennir ýmissa grasa. M.a. verður hægt að skoða myndasögusýningu eftir Íslenska myndasögusamfélagið, ljósmyndasýningar og vídeóverk. Boðið verður upp á veitingar og verður þetta opið hús fyrir almenning.

Um kvöldið fer svo seinna opnunarhóf hátíðarinnar fram, á Máli og menningu frá kl. 20, þar sem verður boðið upp á ýmis skemmtiatriði úr þeim atriðum sem koma fram á hátíðinni.

„Það er ótrúlega spennandi dagskrá í ár, t.d. verður mikið um sirkus og loftfimleika í Tjarnarbíói, afbragðskabarett í gangi á Bar Ananas, experimental leikhús og tónlist í Mengi og stútfull uppistandsdagskrá á The Secret Cellar,“ segir Nanna Gunnars, stjórnandi hátíðarinnar.

Sýningin Three Men From The North, sem er samstarfssýning sirkuslistamanna frá Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi, verður t.d. sýnd tvisvar í Tjarnarbíói, og það sama á við um finnsku dans/sirkussýninguna RISA-Friction.

Sunnudagskvöldið 4. júlí fer svo fram hið árlega forsýningarkvöld í Tjarnarbíói, þar sem öll atriðin fá eingöngu tvær mínútur til að kynna sig fyrir áhorfendum. Úr verður hin besta skemmtun, aðgangur er ókeypis.

Nanna hvetur fólk til að kaupa sér miða snemma á verk á hátíðinni þar sem það muni líklegast seljast upp á margar sýningar. „Eftir mikinn skort á afþreyingu þar sem fólk má koma saman, hlæja, spjalla og skemmta sér, þá vonum við að áhorfendur drífi sig af stað að sjá allt það sem er í boði. Ég mæli með að bóka miðana snemma, því á sumum stöðum er mjög takmarkað magn í boði! Eftirvæntingin er mikil fyrir listamennina að komast á svið og án efa verður rafmögnuð stemning alla vikuna á sýningum.“ Sumar sýninganna eru þó ókeypis, þar með taldar allar vegglistasýningarnar og útiverk, en nýtt vegglistaverk mun prýða Hótel Leif Eiríksson eftir breska listamanninn Angry Dan undir lok hátíðarinnar.

Á The Secret Cellar verður hægt að sjá uppistandssýningar hvert kvöld frá klukkan 18 þar til staðnum er lokað klukkan eitt eftir miðnætti. Uppistandarar Reykjavíkur keppa um mestu hlátrasköllin, en einnig má sjá erlenda uppistandara koma fram. Breski uppistandarinn Eleanor Conway verður með sýninguna You May Recognize Me From Tinder, en einnig eru rússneskar og bandarískar sýningar í boði. Rússinn Oleg Denisov kemur með tvær sýningar, Economy Vodka sem fer fram á The Secret Cellar, en hann nýtir einnig tækifærið til að taka sýninguna Russian Troll upp hér á landi og fer hún fram í Tjarnarbíói.

Hátíðin notast við marga nýja sýningarstaði í ár, og meðal annars verður sérstakri Fringe-miðstöð komið upp í Aðalstræti 2 við Ingólfstorg.

„Í Aðalstræti verður margt í gangi, ókeypis námskeið fyrir unglinga í gegnum Youth Fringe, myndlistarsýningar yfir daginn og sögustundir, leikhúsverk og dansverk á kvöldin. Hátíðarhaldarar frá Noregi og Svíþjóð koma líka til landsins til að sjá það sem er í boði og kynnast íslenskum listamönnum, og þau verða til staðar til að kynna sínar hátíðir fyrir listamönnunum,“ segir Nanna. Reykjavík Fringe er í samstarfi við margar aðrar svipaðar hátíðir á Norðurlöndunum sem kallast Nordic Fringe Network, og því opnar hátíðin á tækifæri fyrir þátttakendur á erlendri grundu.

Youth Fringe-námskeiðin verða fjögur talsins, en þar leiðir dragdrottningin Gógó Starr námskeið um sviðsframkomu, uppistandarinn Dan Zerin fer yfir það hvernig hægt er að nota mótlæti í gerð uppistands, Sirkus unga fólksins leiðir akrónámskeið og listhópurinn Huldufugl hjálpar þátttakendum að skapa sviðsmyndir í óvenjulegum rýmum.

Danssýningin Open Your Heart með krökkum á aldrinum 10-20 ára fer einnig fram í Dansverkstæðinu, en umsóknarfrestur fyrir krakka til að sækja um að vera í sýningunni hefur verið framlengdur til 27. júní. Þar að auki verða tvær töfrabragðakennslustundir fyrir börn, Science Magic í Tjarnarbíói og Magic Class í Aðalstræti 2.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir