Lynne Spears, móðir tónlistarkonunnar Britney Spears, segist hafa áhyggjur af málefnum dóttur sinnar. Mál Britney hefur farið hátt í fjölmiðlum undanfarnar vikur á meðan hún reynir að losna undan föður sínum sem hefur verið lögráðamaður hennar í tólf ár.
Viðtal við Lynne Spears birtist í The New Yorker um helgina. Viðtalið var tekið í júní og taka blaðamennirnir fram að hún hafi hvíslað meðan á símtalinu stóð og sagt að ef einhver í fjölskyldunni heyrði í sér yrði hún að skella á.
„Ég er með blendnar tilfinningar um allt. Ég veit ekki hvað mér á að finnast. Það er mikill sársauki þarna og ég hef miklar áhyggjur,“ sagði móðir söngkonunnar.
Britney Spears ávarpaði dómara í fyrsta skipti um miðjan júní og hefur vitnisburður hennar vakið mikla athygli. Í síðustu viku hafnaði dómari beðni hennar um að losna undan föður sínum en málið verður tekið aftur upp seinna í júlí.