Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, segist í samtali við mbl.is vera ósáttur við ákvörðun þjóðhátíðarnefndar.
Nú rétt fyrir hádegi var greint frá því að Ingólfur muni ekki stýra brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Eyjum og ekki koma fram á hátíðinni. Áður hafði verið gefið út að hann myndi stýra brekkusöngnum.
„Ég er ósáttur við þessa ákvörðun en mun sækja allan minn rétt gagnvart þessu öllu, af fullum þunga,“ segir Ingólfur. Hann segir ákvörðunina hafa verið tekna af nefndinni, ekki honum sjálfum. „Ég hyggst spila öll mín gigg áfram og vinna mína vinnu.“