Dómari hefur fallist á að leyfa Britney Spears að ráða sinn eigin lögmann til að meðhöndla lögráðamál hennar. Kann þessi niðurstaða að hafa mikil áhrif á málið í framhaldinu.
Þetta kemur fram í umfjöllun bandaríska fréttamiðilsins NBC.
Samuel D. Ingham III heitir lögfræðingurinn sem Britney fékk úthlutað áður og hefur séð um lögræðismál hennar frá árinu 2008. Ingham sagði nýverið af sér og óskaði eftir því að fundinn yrði nýr lögfræðingur í hans stað. Britney gerði kröfu um að ráða lögfræðing að sínu eigin vali en ekki að sér yrði skipaður nýr lögmaður. Dómarinn féllst á það í dag.
Lögfræðingurinn sem Britney hefur valið sér heitir Mathew Rosengart en hann starfaði lengi hjá saksóknaraembætti alríkisins. Britney segist hafa átt gott samband við Ingham en hann hafi þó verið valinn fyrir hana og nú vildi hún fá að velja sjálf.
Ákvörðun dómarans um að leyfa Britney að velja sinn eigin lögmann kann að vera stærri sigur en það lítur út fyrir að vera. Britney berst fyrir því að endurheimta lögræði sitt og það að leyfa henni að taka sjálfstæða ákvörðun um hver reki málið fyrir hennar hönd er skref í þá átt. Móðir hennar og systir studdu báðar þessa kröfu.
Britney Spears sjálf kom fram fyrir dómarann með tárin í augunum og sagðist vera komin til þess að losna við föður sinn og láta sakfella hann fyrir misnotkun á stöðu sinni sem lögráðamaður hennar á árunum 2008 til 2019. Hún fer fram á að málið verði rannsakað þar sem þessi misnotkun hans hafi eyðilagt líf hennar.