Harry Bretaprins hefur unnið að því að skrifa sjálfsævisögu sína undanfarna mánuði. Prinsinn er sagður hafa selt Penguin Random House-forlaginu réttinn að útgáfu bókarinnar fyrir 20 milljónir bandaríkjadala, eða tæplega tvo og hálfan milljarð íslenskra króna.
Prinsinn sagði sjálfur frá bókarskrifunum í tilkynningu í gær. Þar sagðist hann ekki vera að skrifa bókina sem prins heldur fullorðni maðurinn sem hann hefur orðið að.
„Ég hef verið í mörgum hlutverkum í gegnum árin, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, mín von er sú að með því að segja mína sögu, frá mínum bestu og verstu stundum, mistökum og því sem ég hef lært, þá get ég hjálpað til við að sýna að sama hvaðan við komum, þá eigum við meira sameiginlegt en við höldum,“ skrifaði Harry í tilkynninguna.
Prinsinn, sem verður 37 ára í september, mun fjalla um æsku sína og uppvöxt í bókinni sem og líf sitt fram til dagsins í dag. Þá mun hann fjalla um árin sín í breska hernum og veru sína í Afganistan. Stefnt er að því að bókin komi út síðla árs 2022.
Eiginkona Harrys, Meghan hertogaynja af Sussex, hefur áður unnið með forlaginu. Í byrjun sumars gaf hún út barnabókina The Bench.
Penguin Random House hefur áður gefið út sjálfsævisögur bæði Michelle og Barack Obama. Ævisaga Michelle, Becoming, kom út árið 2018 og seldist í 725.000 eintökum á fyrsta degi í sölu. A Promised eftir Barack kom út í nóvember á síðasta ári og sló met eiginkonu hans þegar hún seldist í 800.000 eintökum.