Íslendingar í eldlínunni í Madison

Björgvin Karl Guðmundsson, Þuríður Helgadóttir, Annie Mist Þórisdóttir og Katrín …
Björgvin Karl Guðmundsson, Þuríður Helgadóttir, Annie Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hefja leika á morgun þegar þau skella sér til sunds. Samsett mynd

Fjórir íslenskir keppendur eru skráðir til leiks á 15. Crossfit-heimsleikunum sem fara fram í Madison í Bandaríkjunum í vikunni. Leikarnir hefjast á morgun, miðvikudag, og standa fram á sunnudag, 1. ágúst.

Björgvin Karl Guðmundsson er eini íslenski karlmaðurinn sem er skráður til leiks í einstaklingskeppni en þær Katrín Tanja Davíðsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir og Þuríður Helgadóttir eru skráðar í einstaklingskeppni kvenna. Öll eru þau komin út til Bandaríkjanna og innrituðu sig í gær.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, sem einnig hefur keppt á heimsleikunum, er fjarri góðu gamni í ár. Sleit hún krossband í mars á þessu ári og keppir ekki meira fyrr en á næsta ári.

Leikar í einstaklingskeppni hefjast á morgun, miðvikudag, þegar keppendur þurfa að synda eina mílu með froskalöppum og róa þrjár mílur á kajak.  

Fjórir keppnisdagar eru undir á þessum fimm dögum, en fimmtudagur er hvíldardagur. Fjörutíu keppendur í hvorum flokki hefja leika á morgun og keppa á miðvikudag og föstudag. Á föstudag detta tíu slökustu keppendurnir út. Það sama verður gert eftir keppni á laugardag og því keppa aðeins tuttugu keppendur í hvorum flokki í úrslitunum á sunnudag.

Alls eru 15 viðburðir á þessum fjórum keppnisdögum og hafa nokkrar áskoranir viðburðanna verið opinberaðar ein af öðrum á samfélagsmiðlum síðustu vikur. 

Fyrstu heimsleikarnir eftir barnsfæðingu

Leikarnir eru elleftu leikar Annie Mist á 13 árum. Árið 2013 tók hún ekki þátt vegna meiðsla og á síðasta ári tók hún ekki þátt vegna þess að hún gekk með sitt fyrsta barn. Í ágúst fæddi hún dótturina Freyju Mist. Í færslu á Instagram segir Annie síðustu 12 mánuði hafa verið stærstu áskorun í lífi sínu. „Í ár geri ég þetta fyrir Freyju og sjálfa mig - og mun sýna að maður getur hvað sem maður vill ef maður leggur sig fram við það,“ skrifaði Annie á Instagram. 

Annie er ekki eina keppniskonan á leikunum sem er móðir. Alls eru 12,5% keppenda á mótinu í ár mæður. Auk Annie er Kara Saunders nýbökuð móðir og líkt og Annie skildi hún barn sitt eftir heima á meðan hún keppir.

Mekenzie Riley og Regan Huckaby eru einnig mæður og hafa tekið sér hlé frá keppni til þess að ganga með og fæða börn sín. Arielle Loewen er einnig móðir en hún hefur aldrei komist á heimsleikana áður. Hún tók þátt í svæðisbundinni forkeppni árið 2018, gengin tvo mánuði á leið án þess að vita það. 

Annie Mist keppir nú á sínum fyrstu heimsleikum eftir barnsburð.
Annie Mist keppir nú á sínum fyrstu heimsleikum eftir barnsburð. Ljósmynd/Foodspring

Verður Björgvin Karl meistari?

Björgvin Karl, eini íslenski karlmaðurinn í einstaklingskeppninni, er meðal þeirra sem eiga góða möguleika á að vinna leikana í ár. Mat Fraser, sem vann leikana frá 2016 til 2020, setti keppnisbúninginn á hilluna á síðasta ári eftir að hafa unnið karlakeppnina með yfirburðum fimmta árið í röð. 

Það er því ljóst að nýr meistari mun líta dagsins ljós í karlaflokki á sunnudag. Sem fyrr segir meta spekingar það svo að Björgvin Karl eigi góða möguleika ásamt þeim Noah Olsen, Patrick Vellner, Brent Fikowski, Justin Medeiros og Scott Panchik.

Tia-Clair Toomey, sem hefur sigrað í kvennaflokki alls fjórum sinnum, 2017, 2018, 2019 og 2020, á möguleika á að jafna met Frasers í ár. Hún þykir ansi líkleg til þess en þrautirnar sem liggja fyrir reyna á styrkleika keppenda á mismunandi sviðum. 

Gróft yfirlit yfir dagskrá leikanna má finna hér fyrir neðan en nánari dagskrá veður kynnt síðar.

https://www.mbl.is/folk/frettir/2021/03/15/timabilid_buid_hja_soru/

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Plánetur sem auka tekjumöguleikana eru í hagstæðri afstöðu fyrir þig. Ef þú reynir, geturðu skilið í sundur góðu tækifærin frá þeim sem þú hagnast bara lítillega af.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Plánetur sem auka tekjumöguleikana eru í hagstæðri afstöðu fyrir þig. Ef þú reynir, geturðu skilið í sundur góðu tækifærin frá þeim sem þú hagnast bara lítillega af.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir