Warner Brothers International TV (WBITVP) í Þýskalandi hefur tryggt sér réttinn á glæpasögum Ragnars Jónassonar um lögreglumanninn Ara Þór Arason. Um er að ræða sex bóka röð sem kennd er við Siglufjörð og verður hún útfærð fyrir sjónvarp í samstarfi við Herbert L. Kloiber og fyrirtæki hans, Night Train Media. Frá þessu var greint á Variety í morgun.
„Það er ævintýri líkast að fá að vinna að þessu verkefni með Warner Bros., framleiðanda sem á sér svo langa og farsæla sögu. Ég hlakka mikið til samstarfsins og til að sjá bækurnar um Ara Þór lifna við á skjánum,“ segir Ragnar Jónasson.
Bækur Ragnars hafa notið fádæma vinsælda, en þær hafa nú selst í yfir tveimur og hálfri milljónum eintaka og komið út í yfir 33 löndum. Á síðasta ári voru þrjár af bókum Ragnars vikum saman meðal tíu mest seldu á metsölulista Der Spiegel í Þýskalandi. Þá náði bók hans Þorpið (The Girl Who Died) nýverið inn á topp tíu lista Sunday Times, fyrst íslenskra bóka. Gagnrýnendur virtra erlendra blaða og tímarita hafa líka farið afar lofsamlegum orðum um Ragnar.
„Allt frá því að við gáfum Snjóblindu Ragnars út fyrir rúmum áratug var ég viss um að sagan myndi enda í sjónvarpi. Sú trú minnkaði ekki eftir því sem bókunum í Siglufjarðarseríunni fjölgaði. Umhverfið, andrúmsloftið, persónurnar og plottin bókstaflega kölluðu á framhaldslíf á skjánum, enda er Ísland í myrkri, snjó og ófærð frábært sögusvið. Nú er þetta að verða að veruleika í samvinnu við öfluga erlenda framleiðendur og er varla hægt að hugsa sér betri samstarfsaðila. Samningurinn er mikill heiður fyrir Ragnar, enda ætla menn sér greinilega stóra hluti með þetta verkefni,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti og Veröld sem gefur út bækur Ragnars á Íslandi.
Siglufjarðarsería Ragnars kom út á árunum 2010 til 2020, en í bókaröðinni er fylgst með Ara Þór Arasyni, nýútskrifuðum lögreglumanni, takast á við verkefni á starfsstöð sinni og vandamál sem elta hann frá fyrri tíð.
„Okkur er mikið ánægjuefni að hafa tekst að sannfæra stjörnuhöfundinn Ragnar Jónasson um sýn okkar á hvernig vinsæl bókaröð hans yrði best löguð að sjónvarpsþáttaforminu. Við teljum hann skara fram úr sem einn af mest spennandi höfundum glæpasagna á alþjóðavísu í dag. Gerð sjónvarpsþátta upp úr þessum frábæru bókum fellur algjörlega að langtímamarkmiðum okkar um framleiðslu staðbundins og alþjóðlegs efnis í hæsta gæðaflokki. Þá er vandfundinn betri samstarfsaðili en Night Train Media í þetta spennandi verkefni,“ segir Bernd von Fehrn, framkvæmdastjóri handrita hjá WBITVP í Þýskalandi.
Kvikmyndafyrirtækið Night Train Media, sem stofnað var árið 2020, þróar og fjármagnar alþjóðlegar sjónvarpsþáttaraðir, heimildamyndir og kvikmyndir og er með tíu verkefni í framleiðslu á þessu ári. Herbert L. Kloiber forstjóri og Olivia Pahl, yfirmaður þróunar og samvinnu hjá NTM, hlakka til samvinnuverkefnisins um gerð „Dark Iceland“.
„Norrænar spennumyndaþáttaraðir hafa verið mjög vinsælar í mörg ár og ekki að ástæðulausu. Við erum því himinlifandi yfir að fá tækifæri til að þróa svo framúrskarandi verkefni af þessari tegund með WB og hlökkum til að takast á við verkefnið með samstarfsfólki okkar hjá WB,“ segja Kloiber og Pahl.
Framleiðendur sjónvarpsþáttanna fyrir WBITVP, Dagmar Konsalik og Tobias Rosen, segjast hlakka til verkefnisins og telja Ragnar á meðal sannra meistara spennusagnanna. Þau segja verkefnið þegar hafa vakið áhuga mögulegra samstarfsaðila og að Siglufjarðarserían sé athyglisverð fyrir vel heppnað andrúmsloft og spennu og henti því afar vel til kvikmyndunar.