Laufey Lín Jónsdóttir er nafn sem tónlistarunnendur ættu að leggja á minnið. Laufey, sem nýverið lauk námi í Berklee-tónlistarháskólanum í Boston, gaf út lag í samstarfi við Fílharmóníusveit Lundúna í dag.
Lagið, sem hægt verður að nálgast á öllum helstu streymisveitum, heitir „Let you break my heart again“ og segist Laufey hafa samið það um miðja nótt nú í vetur. „Þetta átti ekkert að vera neitt sorglegt lag, en það varð það samt að lokum,“ segir Laufey í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. Hún segir sjálfseyðingarhvöt í bland við ást vera þema lagsins. „Bara svona þegar maður er 21 árs og kann ekkert á ástina og lífið og allt er bara einhvern veginn flókið.“
Laufey ólst upp í heimi klassískrar tónlistar, en móðir hennar spilar á fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún segist alltaf hafa ætlað sér að lifa og hrærast í heimi tónlistarinnar, en ferillinn tók óvænta stefnubreytingu þegar hún hlaut fullan styrk í Berklee-skólann í Boston. „Mér fannst þetta ansi ólíkleg leið fyrir mig að fara, það er í djass- og popptónlist,“ segir Laufey. En í Berklee lærði hún að eigin sögn allt milli himins og jarðar um heim tónlistarinnar, auk söngs.
Hún segir hjólin hafa farið að snúast, og það ansi hratt, þegar hún fór að setja inn myndbönd á samfélagsmiðla af sér að spila eigin lög. Fylgjendahópur Laufeyjar hefur vaxið merkilega hratt á undanförnu hálfu ári. Í kjölfarið hafi svo tækifærin að vissu leyti bara dottið í hendurnar á henni.
Listrænn stjórnandi Lundúnafílharmóníunnar sendi henni tölvupóst í janúar og tjáði henni að hann hefði fylgst með henni og óskaði eftir samstarfi.
„Að heyra lagið sitt spilað með þetta góðri og virtri sveit er náttúrlega algjör draumur,“ segir Laufey um samstarfið.
Einnig fékk hún nú snemma árs annað tækifæri er BBC hafði samband við hana og var hún í kjölfarið fengin til þess að stjórna útvarpsþætti á BBC 3, sem er klassísk rás stöðvarinnar. Þættirnir, Happy harmonies with Laufey, koma út alla laugardaga, og spilar hún klassíska og djasstónlist og leiðir fólk í gegnum hlustunina.
Laufey hyggst leggja í sitt fyrsta tónleikaferðalag nú í haust og byrjar ferðalagið heima á Íslandi þegar hún spilar á Airwaves-hátíðinni. Því næst liggur leiðin til London þar sem hún spilar á London Jazz Festival. Í kjölfarið flýgur hún aftur til Bandaríkjanna og mun ferðast á milli allra helstu stórborga Bandaríkjanna og spila. „Ég er náttúrlega alveg ótrúlega spennt. Ferillinn minn byrjar í miðjum faraldri og ég hef því eiginlega ekkert spilað fyrir framan fólk, nema þá á netinu,“ segir Laufey að lokum.