Kona sem segir tónlistarmanninn Bob Dylan hafa misnotað sig þegar hún var 12 ára gömul hefur lagt fram kæru á hendur Dylan. Konan, sem í dómsskjölum er kölluð J.C., segir atvikið hafa átt sér stað fyrir tæpum 60 árum, þegar Dylan var 24 ára gamall.
Í kærunni er Dylan sakaður um að hafa misnotað J.C. á sex vikna tímabili í apríl og maí árið 1965. Þar segir að Dylan hafi nýtt stöðu sína sem frægur tónlistarmaður og að hann hafi gefið henni bæði áfengi og vímuefni. Þá segir þar að hann hafi misnotað J.C. ítrekað á tímabilinu.
Þá er Dylan, sem varð áttræður í maí, einnig ásakaður um að hafa hótað stúlkunni líkamsmeiðingum. Meint brot eiga að hafa átt sér stað í íbúð Dylans í New York.
J.C. segir Dylan hafa valdið sér sálrænum og tilfinningalegum skaða. Hún krefst miskabóta en ekki hefur verið gefið upp um hversu háa fjárhæð er að ræða.
Dylan hefur neitað öllum ásökunum konunnar.