Streymisveitan Netflix opinberaði í gær fyrstu myndirnar af Dominic West og Elizabeth Debicki í hlutverkum Karls Bretaprins og Díönu prinsessu í nýjustu þáttaröð The Crown.
West tekur við af Josh O'Connor sem Karl og Debicki tekur við af Emmu Corrin sem Díana fyrir þessa fimmtu þáttaröð sem streymisveitan gefur út.
Áður hafði Netflix birt mynd af leikkonunni Imeldu Staunton í hlutverki Elísabetar II. Bretlandsdrottningar en hún tók við af Oliviu Colman.
The Crown fjallar um líf bresku konungsfjölskyldunnar á valdatíma Elísabetar. Í fjórðu seríu var 9. áratugurinn aðalumfjöllunarefnið og er búist við að 10. áratugurinn og fram yfir aldamót verði í brennidepli í þeirri fimmtu.
Upphaflega ætlaði höfundur þáttanna, Peter Morgan, að ljúka þáttunum eftir þá fimmtu en stefnir nú að því að gera sjöttu þáttaröðina.
Ekki hefur verið greint frá því hvenær nákvæmlega fimmta serían verður aðgengileg á Netflix en ekki er búist við henni fyrr en á næsta ári, 2022.