Þjóðleikhúsið mun standa fyrir einstakri leikhúshátíð fyrir unga fólkið í tengslum við frumsýningu á Rómeó og Júlíu í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar á Stóra sviðinu 4. september. Ungu fólki á menntaskólaaldri, sem er fætt 2002-2005, verður boðið á fyrstu sýningar verksins.
Sigurbjartur Sturla Atlason, einnig þekktur sem tónlistarmaðurinn Sturla Atlas, og Ebba Katrín Finnsdóttir fara með hlutverk elskendanna frægu og tónlistarkonurnar Salka Valsdóttir og Bríet Ísis Elfar sjá um lifandi tónlistarflutning í sýningunni.
Nú styttist í frumsýningu Þjóðleikhússins á frægustu ástarsögu allra tíma, Rómeó og Júlíu. Verkið birtist hér í nýrri þýðingu og með grípandi tónlist, í útfærslu sem hrífur áhorfandann með inn í heillandi og hættulegan heim. Þjóðleikhúsið mun bjóða ungu fólk á menntaskólaaldri á fimm fyrstu sýningarnar.
Auk sýninganna verða viðburðir á Stóra sviðinu og plötusnúðarnir Young Nasareth, Dóra Júlía og Unnur Birna munu sjá um fjörið í forsal fyrir og eftir sýningar.
Rómeó og Júlía er saga af sannri ást en um leið ástsýki og ungæðishætti. Í forgrunni verður mögnuð barátta ungrar konu gegn yfirþyrmandi feðraveldi. Fegurstu sögurnar geta sprottið upp úr hræðilegustu aðstæðunum. Þorleifur Örn Arnarsson er einn fremsti leikstjóri Evrópu og einn listrænna stjórnenda hins virta leikhúss Volksbühne. Hann á að baki geysivinsælar sýningar á Íslandi á borð við Engla alheimsins og Njálu. Nú hefur hann gengið til liðs við nýtt listrænt teymi Þjóðleikhússins þar sem hann mun starfa á næstu árum.
Rómeó og Júlíu-hátíðin stendur yfir dagana 4.-10. september og er fyrir gesti sem fæddir eru 2002-2005. Hægt verður að tryggja sér miða á sýningar eftirfarandi daga:
Lau 4. sept. kl. 18:30
Sun 5. sept. kl. 18:30
Mið 8. sept. kl. 18:30
Fim 9. sept. kl. 18:30
Fös 10. sept. kl. 18.30
Hægt er að panta miða á sérstökum miðapöntunarvef.