Sænski rithöfundurinn Gunilla Bergström er látin 79 ára að aldri. Bergström var höfundur bókanna um Einar Áskel. SVT greinir frá.
Bergström lést á heimili sínu í gær en útgefandi hennar Bok-Makaren AB greindi frá andláti hennar.
Alls urðu bækurnar um Einar Áskel 26 en sú fyrsta, Góða nótt, Einar Áskell, kom út árið 1972. Bækur hennar voru þýddar á 29 tungumál. Einar heitir á frummálinu Alfons Åberg.
Bergström var fædd og uppalin í Gautaborg og lagði stund á blaðamennsku. Hún vann á Aftonbladet og Dagens Nyheter áður en fyrsta bók hennar, Mias pappa flyttar, kom út árið 1972.
Góða nótt, Einar Áskell kom út á íslensku árið 1980 í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur. Bækur hennar hafa verið seldar í yfir fimm milljónum eintaka í Svíþjóð og í fjórum milljónum eintaka utan Svíþjóðar.