Ingó Veðurguð er hvergi að sjá á Facebook-viðburði Nordic Live Events, tónleikasýningunni Grease, en þar átti hann að fara með hlutverk Danny Zuko á móti Jóhönnu Guðrúnu sem mun bregða sér í hlutverk Sandy.
Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix miðasölu, segir í samtali við mbl.is að von sé á fréttatilkynningu frá Tix um fyrirkomulag sýningarinnar á mánudaginn. Að öðru leyti gat hún ekki tjáð sig um hver færi með hlutverk Danny í sýningunni.
Þetta er ekki fyrsta verkefnið sem gæti verið að renna söngvaranum úr greipum en Ingó fékk ekki að stýra brekkusöngnum á þjóðhátíð í ár í kjölfar fjölda ásakana um kynferðisofbeldi, sem borist hafa á hendur honum.
Tónleikasýningin á að fara fram laugardagskvöldið 23. október í Laugardalshöll en selt verður í stúku og sæti á gólfi og því um takmarkað magn miða að ræða.
Klassíski söngleikurinn Grease ætti að vera mörgum kunnur en þar gerðu Olivia Newton og John Travolta garðinn frægan með leik sínum sem Danny Zuko og Sandy, árið 1978.