Bifreið Hollywood-leikarans Tom Cruise var stolið í Birmingham á Bretlandi á meðan leikarinn var við tökur á kvikmynd. Cruise er nú við tökur á kvikmyndinni Mission: Impossible 7 í Bretlandi.
Bifreiðinni, sem er af gerðinni BMW X7, var stolið fyrir utan Grand Hotel í miðborg Birmingham. Hún fannst stuttu seinna í Smethwick, tæpa fimm kílómetra frá hótelinu. Talið er að í bílnum hafi verið hluti af farangri og eigum Cruise en bíllinn var tómur þegar hann fannst.
Cruise hefur sést víða í Bretlandi undanfarnar vikur. Þá lenti þyrla hans í garði ókunnugrar fjölskyldu í Baginton í Warwickshire vegna lokunar á Coventry flugvelli en Cruise var orðinn seinn á fund.