„Við gefum hvergi eftir“

„Við kynnum hér einstaklega fjölbreytt og spennandi leikár og sjaldan …
„Við kynnum hér einstaklega fjölbreytt og spennandi leikár og sjaldan hefur leikhúsið mætt betur undirbúið til leiks,“ segir Magnús Geir Þórðarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum óskaplega spennt fyrir nýju leikári, full tilhlökkunar og bjartsýni,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri þegar hann er spurður hvort hann horfi björtum augum til komandi leikárs í ljósi þess hversu miklar skorður heimsfaraldurinn hefur sett allri sviðslistastarfsemi síðustu 18 mánuði.

Sýningar eru þegar hafnar á verðlaunasýningunum Vertu úlfur eftir Héðin Unnsteinsson og Unni Ösp Stefánsdóttur í leikstjórn Unnar Aspar, Kafbát eftir Gunnar Eiríksson í leikstjórn Hörpu Arnardóttur, fjölskyldusýningunni Kardemommubænumn eftir Thorbjørn Egner í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og nýverið var heimildaverkið Góðan daginn faggi eftir Bjarna Snæbjörnsson og leikstjórann Grétu Kristínu Ómarsdóttur frumsýnt í endurbættum Þjóðleikhúskjallara.

„Við kynnum hér einstaklega fjölbreytt og spennandi leikár og sjaldan hefur leikhúsið mætt betur undirbúið til leiks,“ segir Magnús Geir og vísar þar til þeirra sýninga sem byrjað var að vinna á síðasta leikári en ekki náðist að frumsýna vegna faraldursins.

Þetta eru Rómeó og Júlía eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, Ásta eftir Ólaf Egil Egilsson í leikstjórn höfundar sem byggist á höfundarverki Ástu Sigurðardóttur, Jólaboðið í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar sem vinnur leikgerð byggða á verki Tyru Tønnessen sem innblásið er af leikriti eftir Thornton Wilder, Framúrskarandi vinkona eftir Napólísögum Elenu Ferrante í leikgerð April de Angelis og leikstjórn Yaël Farber, Sjö ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar og hádegisverkin Út að borða með Ester eftir Bjarna Jónsson í leikstjórn í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur, Rauða kápan eftir Sólveigu Eir Stewart í leikstjórn Hilmars Guðjónssonar, Heimsókn eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur í leikstjórn Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur og Verkið eftir Jón Gnarr í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur. Frá fyrra leikári verða sýndar, auk Vertu úlfur og Kardemommubæjarins og Kafbáts, Nashyrningarnir eftir Eugène Ionesco í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og Upphaf eftir David Eldridge í leikstjórn Maríu Reyndal.

„Eðli málsins samkvæmt ber leikárið þess merki að við lifum …
„Eðli málsins samkvæmt ber leikárið þess merki að við lifum óvenjulega tíma. Í stað þess að hlaupa í vörn stöndum við keik og gefum hvergi eftir. Íslenskum leikhúsgestum standa til boða ótal sýningar sem munu hreyfa við þeim á komandi mánuðum,“ segir Magnús Geir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mögulega fyrsta #MeToo-sagan

Fyrsta frumsýningin á Stóra sviðinu verður í byrjun september en þar er um að ræða Rómeó og Júlíu. „Þorleifur hefur, í samvinnu við leikhópinn, unnið nýja leikgerð af þessari frægustu ástarsögu allra tíma þar sem tónlistin leikur áberandi hlutverk. Þetta er fersk og aðgengileg sýning sem talar sterkt inn í nútímann,“ segir Magnús Geir, en sú nýbreytni verður tekin upp að boðið verður upp á umræður með leikhópnum að lokinni hverri sýningu.

„Ég er sannfærður um að þessi sýning muni höfða sterkt til allra leikhúsunnenda, en ekki síst til ungs fólks, og kalla á umræður um þær áleitnu spurningar sem verkið vekur. Faraldurinn setti stórt strik í líf ungs fólks megnið af síðasta vetri og af þeim sökum langar okkur að bjóða ungu fólki á aldrinum 16-20 ára á fyrstu fimm sýningar verksins,“ segir Magnús Geir, en á þeim sýningum leika plötusnúðar í forsal. Hægt verður að skrá sig fyrir miðum á vef Þjóðleikhússins frá og með morgundeginum.

„Um miðjan september frumsýnum við Ástu í Kassanum. Hér er um að ræða átakasögu þessarar mögnuðu konu, Ástu Sigurðardóttur. Þetta er Reykjavíkursaga úr nálægri fortíð og kannski fyrsta #MeToo-sagan sem fjallað er um opinberlega á Íslandi,“ segir Magnús Geir og vísar þar til frægustu smásögu Ástu sem nefnist „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ og fjallar um kynferðisofbeldi sem söguhetjan, nefnd Ásta, verður fyrir af hendi manns sem hún treystir.

Jólaboðið verður frumsýnt um miðjan nóvember. Um er að ræða áhrifamikla fjölskyldusögu þar sem áhorfendur fá að kíkja í heimsókn til sömu fjölskyldunnar á aðfangadagskvöld með reglulegu millibili yfir 100 ára tímabil. Framúrskarandi vinkona verður jólasýningin í ár. Hér er um að ræða epískt verk sem byggist á geysivinsælum sögum Elenu Ferrante. Sagan spannar lífshlaup, ástir og örlög vinkvennanna Lilu og Lenu.

„Það hefur verið mikill fengur fyrir leikhópinn og leikhúsið að fá að vinna með hinni frábæru Yaël Farber að þessari stórsýningu,“ segir Magnús Geir og tekur fram að sýningin sé afar sjónræn og mjög líkamleg. „Við vorum einnig svo heppin að fá til liðs við okkur tvo frábæra erlenda kóreógrafa, þau Conor Doyle og Emily Terndrup, sem unnið hafa m.a. með Punchdrunk, Almeida og National Theatre.

Segja sögur af fólki á jaðrinum

„Eftir áramót frumsýnum við á Stóra sviðinu Sjö ævintýri um skömm sem er alveg „brilljant“ verk út smiðju Tyrfings sem er í hópi okkar fremstu leikskálda. Verkið er í senn óborganlega fyndið, ósvífið og sárt. Með vorinu frumsýnum við söngleikinn Sem á himni sem er glænýr söngleikur sem er að hefja sigurför um heiminn. Í verkinu er dásamlegt persónugallerí, falleg saga sem sameinar áhorfendur og yndisleg tónlist. Hér er á ferð sannkölluð stórsýning með hátt í þrjátíu leikurum og fjórtán manna hljómsveit í gryfju,“ segir Magnús Geir, en í lykilhlutverkum eru Elmar Gilbertsson og Salka Sól Eyfeld.

„Að lokum á Stóra sviðinu verður að segja frá Taylor Mac sem er ein virtasta sviðslistamanneskja Bandaríkjanna sem kemur ásamt fimmtán manna hópi og setur, í samvinnu við listafólk Þjóðleikhússins, upp sýningu sem er opnunarviðburður á Listahátíð í Reykjavík í júní á næsta ári. Hópurinn hefur sýnt þessa sýningu víða um heim við góðar viðtökur,“ segir Magnús Geir og tekur fram að hann sé afskaplega stoltur af komandi leikári.

„Það er afar fjölbreytt og metnaðarfullt. Það er stútfullt af nýjum íslenskum sögum. Hér er verið að segja alvörusögur af manneskjum sem margar hverjar eru á jaðrinum í einhverjum skilningi. Hér verða sagðar sterkar kvennasögur. Þarna eru krefjandi og ágeng verk sem spyrja áleitinna spurninga, en líka tilfinningaþrungin, sameinandi og hlý verk sem leyfa okkur að hlæja saman. Ég held því að allir muni finna eitthvað við sitt hæfi. Hópur listamanna Þjóðleikhússins hefur styrkst mikið að undanförnu og við munum gera margvíslegar tilraunir með aðferðir og form,“ segir Magnús Geir og heldur áfram að kynna ný verk leikársins.

„Við þurfum öll á því að halda að rækta andann …
„Við þurfum öll á því að halda að rækta andann og við finnum sterklega fyrir því að þjóðina þyrstir í að koma saman á ný og njóta menningar,“ segir Magnús Geir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægt að fá erlent listafólk til starfa

„Í febrúar frumsýnum við leikritið Ást og upplýsingar eftir Caryl Churchill, en þetta er fyrsta verkið hennar sem sett er upp í Þjóðleikhúsinu,“ segir Magnús Geir og bendir á að þótt Churchill sé eitt merkasta núlifandi leikskáld Breta hafi hún ekki verið leikin hjá stofnanaleikhúsunum hérlendis þar til nú. „Þetta er nýlegt og margverðlaunað verk sem fjallar um samskipti fólks á brotakenndum tímum upplýsingatækninnar þar sem heimurinn snýst hraðar en áður. Leikstjóri uppfærslunnar er Una Þorleifsdóttir, en við fáum erlendan liðsauka til að hanna leikmyndina. Það er hinn virti Daniel Angermeyer, en hann gerir líka leikmyndina að samsköpunarsýningunni Án titils sem Þorleifur Örn leikstýrir og semur í samvinnu við leikhópinn og Jón Atla Jónasson þar sem áföll, jafnt stór sem smá, eru til skoðunar og úrvinnsla fólks úr þeim,“ segir Magnús Geir, en sýningin mun flæða á milli Kassans og Litla sviðsins, sem áður nefndist Kúlan. „Meðal leikara er þýska leikkonan Jördis Richter sem er búsett hérlendis,“ segir Magnús Geir.

Hér liggur beint við að spyrja þjóðleikhússtjóra um gildi þess að fá erlent listafólk til starfa hjá Þjóðleikhúsinu. „Frá því ég tók hér við stjórnartaumum hef ég lagt áherslu á að fjölga framúrskarandi erlendu listafólki sem vinnur með okkur. Markmiðið með því er fyrst og fremst að opna íslenskt leikhúslíf, fá ný áhrif, sem okkur veitir ekki af vegna þess hversu lítið samfélag við erum. Okkur er hollt að fá fólk með ferska sýn sem getur kennt okkur eitthvað nýtt. Þetta hefur jákvæð áhrif á leikhópinn og framþróun listafólksins sem starfar hér við húsið og skilar sér vonandi í enn fleiri framúrskarandi og ógleymanlegum sýningum,“ segir Magnús Geir og staðfestir að verið sé að ljúka samningum við fleiri leikstjóra í fremstu röð sem munu leikstýra við Þjóðleikhúsið á næstu árum.

Tilraunavettvangur á Loftinu

„Í haust frumsýnum við verkið Láru og ljónsa – jólasögu sem byggist á vinsælum bókum Birgittu Haukdal í leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar með nýrri tónlist eftir Birgittu. Við höldum áfram með Leitina að jólunum 17. árið í röð. Eftir áramót frumsýnum við Umskipting eftir Sigrúnu Eldjárn í leikstjórn Söru Martí Guðmundsdóttur með nýrri tónlist eftir Ragnhildi Gísladóttur. Þetta er frábærlega fyndið og skemmtilegt nútímaverk sem fjallar um tröll og menn með vísan í þjóðsagnaarfinn. Þá mun Þjóðleikhúsið bjóða upp á útisýningu á tröppum leikhússins í aðdraganda jólanna.

Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson í leikstjórn Björns Inga Hilmarssonar verður frumsýnd í haust og fer í leikferð um landið þar sem efstu bekkjum grunnskólans býðst að sjá verkið. Í vor verður Túskildingsóperan eftir Bertolt Brecht í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar sett upp í Kassanum, en þar er um að ræða útskriftarsýningu nemenda af leikarabraut við Listaháskóla Íslands.

Loks má nefna sýninguna Prinsinn sem frumsýnd verður í Frystiklefanum á Rifi í vetur og sýnd víðs vegar um landið þar til hún ratar í sýningar í Þjóðleikhúsinu á þar næsta leikári. Þetta er heimildaverk sem Kári Viðarsson skrifar í samvinnu við leikstjórann Maríu Reyndal,“ segir Magnús Geir og nefnir að lokum að spennandi hlutir séu væntanlegir á Loftinu, sem er nýr tilraunavettvangur innan veggja leikhússins. „Í fyrra tókum við nokkur verk í þróun og sum þeirra halda áfram í næsta fasa þróunar og verða sýnd sem verk í vinnslu,“ segir Magnús Geir, en meðal þeirra verka eru Trúnó undir stjórn Dominique Gyðu Sigrúnardóttur og Siggu Daggar og Íslandsklukkan sem unnin er í samstarfi við leikhópinn Elefant.

Öryggi leikhúsgesta mikið

„Eðli málsins samkvæmt ber leikárið þess merki að við lifum óvenjulega tíma. Í stað þess að hlaupa í vörn stöndum við keik og gefum hvergi eftir. Íslenskum leikhúsgestum standa til boða ótal sýningar sem munu hreyfa við þeim á komandi mánuðum,“ segir Magnús Geir og tekur fram að vegna ástandsins séu gerðar tímabundnar breytingar á áskriftarkortunum. „Kortin eru opnari og aðgengilegri en áður. Gestir geta breytt miðum hvenær sem er og ráða alfarið sjálfir hve margar sýningar eru í kortunum, enda eiga margir enn ónýtta miða frá síðasta leikári. Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu gesta og við í leikhúsinu hlökkum óskaplega til vetrarins,“ segir Magnús Geir.

Það er ekkert launungarmál að allar menningarstofnanir landsins hafa orðið fyrir tekjufalli út af faraldrinum. Aðspurður hvort Þjóðleikhúsið hafi fengið sitt tekjufall bætt af hendi ríkisins svarar Magnús Geir því játandi. „Sem er þakkarvert,“ segir Magnús Geir og tekur fram að sem betur fer séu hérlend stjórnvöld meðvituð um mikilvægi menningar í íslensku samfélagi.

„Við þurfum öll á því að halda að rækta andann og við finnum sterklega fyrir því að þjóðina þyrstir í að koma saman á ný og njóta menningar,“ segir Magnús Geir og bendir á að menningarstofnanir vonist til að hámarksfjöldi gesta aukist, hægt verði að draga úr nándartakmörkunum sem fyrst, mögulega gegn því að gestum bjóðist aðgengileg hraðpróf án kostnaðar.

„Sagan sýnir að öryggi leikhúsgesta er mikið og enn hefur enginn smitast í menningarhúsum landsins þótt inn hafi komið einstaka gestir með smit sem auðvelt var að rekja,“ segir Magnús Geir, sem ásamt því að vera þjóðleikhússtjóri er í forsvari fyrir Samtök atvinnuveitenda í sviðslistum og tónlist (SAVÍST). „Ég er sannfærður um að það er rík þörf fyrir að það sé opnað eins mikið og mögulegt er með tilliti til öryggis. Andleg heilsa þjóðarinnar er mikilvæg og þar gegnir Þjóðleikhúsið ásamt öðrum menningarstofnunum mikilvægu hlutverki,“ segir Magnús Geir að lokum. Viðtalið við hann birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins fimmtudaginn 26. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir