Bandaríski sjónvarpsleikarinn Ed Asner, sjöfaldur Emmy-verðlaunahafi, er látinn, 91 árs að aldri. Fjölskylda hans greindi frá þessu í dag.
„Okkur þykir leitt að tilkynna að okkar ástkæri fjölskyldufaðir andaðist í morgun. Orð geta ekki lýst því hversu sorgmædd við erum,” skrifaði fjölskyldan hans á Twitter.
„Með kossi á höfuðið – góða nótt pabbi. Við elskum þig.”
Asner lést af náttúrulegum orsökum, að sögn aðstoðarmanns hans.
Ed Asner, Emmy-Winning ‘Lou Grant’ Star, Dies at 91 https://t.co/dYi3bA5sPy
— Variety (@Variety) August 29, 2021
Asner sló fyrst í gegn sem Lou Grant í „The Mary Tyler Moore Show”, gamanþætti sem var sýndur frá 1970 til 1977. Síðar lék hann í afleggjara þáttarins sem fjallaði um persónu hans.
Asner vann þrenn af sjö Emmy-verðlaunum sínum fyrir að leika Lou Grant.
Hann lék einnig ekkjumanninn Carl Fredericksen í teiknimyndinni vinsælu „Up” sem kom út 2009.