Greint var frá því í gær að HBO Max, ein stærsta streymisveita heims, verði aðgengileg Íslendingum nú í haust. Þar með eykst enn framboð á sjónvarpsefni og var nú vart á valkvíða margra að bæta.
Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður á RÚV og sérfræðingur um afþreyingarmenningu, segir að efni HBO eigi eftir að vekja áhuga margra. Hann nefnir sem dæmi að HBO hafi sýnt endurfundaþátt Friends fyrir skemmstu og hafi boðað framhald af hinum vinsælu þáttum Beðmál í borginni. Þá verði forleikur Krúnuleikanna á dagskrá þar á bæ innan tíðar. Ýmsir konfektmolar leynast í gömlum rekkum HBO, svo sem Sopranos, West Wing og The Wire.
„Fólk er ekki lengur að horfa á sjónvarp, það er bara að horfa á streymisveitur. Það á ekki bara við um stóru erlendu veiturnar heldur líka þær íslensku; Stöð 2+ og Sjónvarp Símans Premium,“ segir Freyr sem kveðst sjálfur hafa nýlega sagt upp erlendum veitum og fengið sér áskrift að Stöð 2+. Það gerði hann til að horfa á ákveðna þætti sem þar eru í boði en svo er hægur vandi að snúa dæminu við að hans sögn.
Óhætt er að segja að veruleikinn sem blasir við fólki fyrir framan viðtækin sé annar í dag en fyrir nokkrum árum. Ef það hefur áhuga á að fylgjast með nýjustu þáttunum og myndunum virðist nauðsynlegt að kaupa áskrift að nokkrum veitum í senn.
Fimm stórar veitur munu standa Íslendingum til boða þegar HBO Max bætist í hópinn. Fyrir voru á fleti Netflix, Amazon Prime, Viaplay og Disney+ auk þeirra íslensku.
„Viaplay er að sækja í sig veðrið, ekki síst í íþróttunum,“ segir Freyr en fjallað var um breytt landslag fótboltaáhugafólks á þessum vettvangi fyrir skemmstu. „Svo er það Disney+ sem virðist vera skylda fyrir foreldra að vera með, ekki síst þegar sú veita er farin að láta undan þrýstingi að vera með íslenskt efni. Amazon er að mínu viti bara svona allt í lagi veita en svo er það kóngurinn, Netflix, sem allir þekkja.“
Freyr segir áhugavert hvernig þróunin hafi verið í efnisframboði hjá veitunum. „Þær seilast sífellt lengra. Fyrst fóru þær að framleiða eigið efni en nú eru þær farnar að frumsýna bíómyndir. Síðasta Marvel-myndin, Black Widow, kom snemma inn á Disney+ en það þurfti reyndar premium-pakka til að geta horft á hana. Áhorf á veiturnar rauk upp í heimsfaraldrinum, kannski ekki eins mikið hér á landi og annars staðar þar sem fólk var bókstaflega lokað inni. En stórfyrirtækin greina breytta hegðun, fólk vill nú hafa efnið innan handar.“
Þessi þróun er ekki bara af hinu góða að mati Freys. „Framboðið er of mikið. Það er alltaf að aukast og ekki er allt jafn gott. Manni finnst bera á því að eitthvert drasl sé upphafið.“
„Netflix hefur lagt ofurkapp á að vera með íslenskt efni, Katla og Brot eru fyrsti vísirinn að því,“ segir hann og vísar til þátta Baltasars Kormáks sem aðeins voru sýndir á Netflix og Brota, eða The Valhalla Murders, sem bæði voru sýndir á RÚV og á Netflix.
Freyr bætir við að sú þróun gæti verið jákvæð fyrir sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hér á landi. „Það kemur kannski aukið fjármagn hingað til lands,“ segir hann.