Faðir söngkonunnar Britney Spears hefur lagt fram formlega beiðni um að hætta sem lögráðamaður dóttur sinnar.
Fram kemur í skjölum sem voru lögð fram fyrir dómstóla að nýleg atburðarás hafi sýnt að aðstæður gætu hafa breyst í málinu þannig að ekki sé lengur þörf á að hafa forsjá yfir söngkonunni.
„Spears sagði þessum dómstóli að hún vilji fá að stjórna lífi sínu aftur,“ segir m.a. í skjölunum.
Britney Spears, sem er 39 ára, segist ekki ætla að stíga aftur á svið á meðan hún er undir stjórn föður síns Jamie Spears. Hann hefur verið lögráðamaður hennar frá 2008 en tónlistarkonan hefur reynt að losna undan honum undanfarin tvö ár.