Vikan með Gísla Marteini snýr aftur á dagskrá Ríkisútvarpsins í kvöld. Í þættinum munu Tvíhöfða félagar Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson fara yfir stóru málin með frambjóðendum til Alþingiskosninga og hefur Rúv nú birt stutt brot úr þætti kvöldsins þar sem þeir félagar spyrja frambjóðendur hvort þeir hafi drukkið landa.
Flestir frambjóðanda svöruðu spurningunni játandi, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Inga Sæland formaður Flokks fólksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar.
„Kommon, það hafa allir drukkið landa sko. Er þetta í alvörunni spurning? Ég meina allir sem eru úr sveit hafa drukkið landa,“ sagði Ásmundur Einar við spurningunni og uppskar hlátur frá Jóni og Sigurjóni.
Í yfirheyrslunni sem sýnd verður í heild sinni í Vikunni í kvöld munu frambjóðendur einnig svara spurningu um hvort þau hafi prófað ólögleg vímuefni og segir í fyrirsögn Rúv að sex af tíu hafi prófað. Þátturinn er á dagskrá klukkan 20:45 í kvöld.