Chrissy Teigen hefur átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið. Stutt er síðan upp komst um vana hennar að senda hræðileg skilaboð til ýmissa aðila í stjörnuheiminum. Í kjölfarið missti hún samstarfssamning og hún lofaði bót og betrun.
Nú ganga þær sögur að hún sé markvisst að reyna að vinna til sín vini í Hollywood og komast aftur í innsta hringinn. Hún er sögð reyna að kaupa sér vinsældir. „Hún eys þá dýrum gjöfum og sparar ekki hrósin,“ segja heimildarmenn.
„Hún er að senda matreiðslubækurnar sínar, snyrtivörur og margt annað til stórstjarna á borð við Jennifer Aniston, Reese Witherspoon og annarra sem hafa áhrif innan Hollywood. Hún vonast til þess að komast úr slaufuklúbbnum (cancel club). Þá fylgja með litlir handskrifaðir miðar þar sem hún eys lofi á fólkið. Þá býðst hún til þess að koma því í kring að eiginmaður hennar John Legend syngi í afmælum þeirra.“