Crossfit-stjarnan Annie Mist Þórisdóttir hefur fjárfest í orkudrykkjaframleiðandanum Yerbaé og er komin í stjórn fyrirtækisins. Yerbaé framleiðir hitaeiningalausa, sykurlausa orkudrykki úr mate.
Annie fór upphaflega í samstarf með Yerbaé fyrir Heimsleikana í crossfit sem fóru fram í byrjun ágúst síðastliðinn. Sex vikum seinna fjárfesti hún í fyrirtækinu og tók stöðu í stjórn fyrirtæksins.
Yerbaé var stofnað árið 2017 af hjónunum Karrie og Todd Gibson. Annie var fyrst íþróttamaðurinn sem fór í samstarf við fyrirtækið.
Á vefnum Morning Chalk Up sem fjallar um crossfitheiminn segir að um sé að ræða einstaka fjárfestingu þar sem crossfitkappar hafa aldrei fjárfest beint í fyrirtækjum. Það þekkist þó víða í íþróttaheiminum.
Aðrir íþróttamenn í crossfitheiminum hafa að mestu stofnað fyrirtæki tengd crossfit eða heilsu, eins og til dæmis Rich Froning og Jason Khalipa sem hafa stofnað líkamsræktarstöðvar.
Annie lenti í þriðja sæti á Heimsleikunum í sumar og hlaut 13,2 milljónir íslenskra króna í verðlaunafé.