Bandaríski leikarinn Michael K. Williams lést vegna ofneyslu af blöndu af heróíni, kókaíni, fentanýli og p-flúorfentanýli, að sögn yfirlæknis í New York. Williams varð frægur fyrir hlutverk sitt sem Omar Little í þáttunum The Wire.
Williams, sem var 54 ára, fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í New York 6. september síðastliðinn.
Williams hafði áður tjáð sig um fyrri fíkniefnaneyslu sína.
Hann sagði frá því árið 2012 að á meðan hann lék í The Wire notaði hann fíkniefni á „skelfilegum stöðum með skelfilegu fólki.“ Hins vegar bætti hann við að hann hefði ekki tekið neitt sterkara en kókaín og marijúana.
„Ég var að leika mér að eldi. Það var bara tímaspursmál hvenær ég myndi enda á forsíðu slúðurblaðs eða ég færi í fangelsi eða verra, ég myndi enda dauður,“ sagði hann við fjölmiðil erlendis.
Veggmynd til minningar um Williams á að afhjúpa um helgina í heimabæ hans Fort Greene í Brooklyn.