Tónlistarmaðurinn frægi, R. Kelly, var í dag fundinn sekur um að hafa, í áratugi, leitt glæpastarfsemi sem gekk út á mansal og vændi.
Hann var sakfelldur fyrir alla þá níu ákæruliði sem að honum beindust. Meðal annars fjárglæfrar og mansal.
Eftir sex vikna vitnisburði sem hafa vægast sagt ekki verið fyrir viðkvæm eyru að hlýða á, þurfti kviðdómurinn ekki nema níu klukkustunda rökræður áður en komist var að niðurstöðu.
Fimmtíu vitni voru kölluð til í heildina. Bæði konur og karlar sögðu R. Kelly hafa brotið á þeim og flest höfðu þau verið á barnsaldri þegar brotin áttu sér stað.
Dómsuppkvaðning R. Kelly verður þann fjórða maí en hann er fimmtíu og fjögurra ára og hefur vakið meiri athygli fyrir það að vera bendlaður við hin ýmsu kynferðisbrotamál, en tónlist sína, á síðustu árum.
R. Kelly á líklega yfir höfði sér áratuga fangelsisdóm.