Breska glamúrfyrirsætan Katie Price var handtekin eftir bílslys í gær, þriðjudag. Bíll hennar valt á hliðina og þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn var hún handtekin grunuð um akstur undir áhrifum áfengis- og fíkniefna.
Fjölskylda Price sendi frá sér tilkynningu á instagramsíðu hennar í gær. Þar segja þau að þeirra verstu martraðir hafi næstum því ræst í gær þegar þau voru látin vita af slysinu. Þau hafi reynt að aðstoða hana við að leita sér hjálpar en ekki tekist það.
„Við vonum að hún muni átta sig á því að hún getur ekki tekist á við þennan vanda ein,“ segir í færslunni. Þau bæta við að þau hafi haft áhyggjur af henni um nokkurt skeið.
Ekki er talið að Price hafi slasast alvarlega í bílveltunni. „Kona var handtekin grunuð um ölvunar- og fíkniefnaakstur á sama tíma og hún ók yfir hámarksharða. Hún hefur verið flutt á spítala til athugunar,“ sagði í tilkynningu frá lögreglu í gær. Lögreglu var gert viðvart klukkan 6:20 í gærmorgun.