Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF hófst í gær á frumsýningu á kvikmyndinni Versti maður í heimi eftir Joachim Trier
Á morgun verður e.t.v. stærsti viðburður hátíðarinnar í ár þegar Blondie: Að lifa í Havana, sem fjallar um langþráða tónleikaferð hljómsveitarinnar til Kúbu, verður frumsýnd. Í kjölfarið mun Debbie Harry, söngvari Blondie, eiga samtal við Andreu Jónsdóttur, Berg Ebba Benediktsson og áhorfendur í sal.
Debbie Harry var viðstödd setningu hátíðarinnar í gær í Gamla Bíói og við hlið Harry (fremst t.v.) sat Rob Roth sem leikstýrði myndinni og við hlið hans frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Roth ávarpaði einnig gesti.
Þetta er í 18. sinn sem kvikmyndahátíðin er haldin og stendur hún til 10. október.
Lokamynd RIFF verður Margrete, Queen of The North sem frumsýnd var í Kaupmannahöfn á dögunum í leikstjórn Charlotte Sieling og með Trine Dyrholm í aðalhlutverki. Norrænt samstarfsverkefni, True North er meðframleiðandi og Halldóra Geirharðs og Tinna Hrafns leika í myndinni.
Upphaflega kom fram að Blondie: Að lifa í Havana hafi verið opnunarmynd hátíðarinnar í ár. Það er ekki rétt og hefur þetta nú verið leiðrétt. Beðist er velvirðingar á misfærslunni.