Hljómsveitin Karma Brigade gaf út sína fyrstu breiðskífu með 9 frumsömdum lögum á föstudag, þann 1. október. Á plötunni er stór og hrífandi hljóðheimur en hljómsveitin sækir innblástur úr öllum áttum, allt frá hljómsveitinni Sigurrós til Radiohead.
Hljómsveitina gætu eflaust margir kannst við en þau hafa troðið upp á hinum ýmsu viðburðum undanfarin ár. Þá hafa þau unnið jólalagakeppni Rásar 2 árið 2016 og spilað á úrslitakvöldi Músíktilrauna 2018 og 2019 og voru þau kosin Hljómsveit fólksins í keppninni bæði árin.
Nýútgefna platan ber nafnið States of Mind og er eins og hljómsveitin kallar það, „konsept plata“ sem segir frá löngu ferðalagi ungrar manneskju í gegnum tilfinningar, myrkur og angist. Samkvæmt hljómsveitarmeðlimum er saga plötunnar einlæg og persónuleg enda á hvert og eitt lag að fjalla um ákveðið hugarástand manneskjunnar á erfiðum tímum.
„Þessi plata er búin að vera í vinnslu í svona þrjú ár og við keyrðum svolítið á hana þegar faraldurinn skall á. Síðasta sumar var því eiginlega bara eytt í hlóðverinu og fór í að klára plötuna,“ segir Hlynur Sævarsson, bassaleikari hljómsveitarinnar.
Hljómsveitina skipa þau Agla Bríet Bárudóttir sem syngur og spilar á gítar, Hlynur Sævarsson á bassa, Kári Hlynsson á hljómborð og hljóðgervla, Jóhann Egill Jóhannsson sem trommar og syngur, Steinunn Hildur Ólafsdóttir sem spilar á píanó og syngur og Alexander Grybos sem spilar á gítar. Á plötunni má einnig heyra í gítarleikurunum Abigail Zachko og Jóhannesi Stefánssyni.
Hlynur segir meðlimina hafa kynnst í tónlistarskóla fyrir um sex árum síðan og að þau hafi verið að spila saman síðan þá.
„Við vissum alltaf að við myndum einn daginn gefa út plötu í fullri lengd og fyrir þremur árum þá var komin svolítið góð sýn á hvernig plata þetta ætti að vera og við erum búin að vera að vinna að því með það sjónarmið að gera stóra plötu sem segir frá langri sögu,“ segir hann.
„Heilt yfir hefur gengið rosalega vel að vinna að plötunni en við erum auðvitað búin að rekast á endalaust af veggjum,“ segir Hlynur. Hann segir að hljómsveitin hafi farið í marga hringi varðandi próduseringu og hafi byrjað á því að fá hljóðmenn til að sjá um það fyrir sig.
„Við urðum eiginlega aldrei hundrað prósent ánægð með það, þar sem það var í rauninni ekki eins og við höfðum séð fyrir okkur. Við ákváðum því að taka frekar djarfa ákvörðun um að vinna plötuna alveg sjálf frá a til ö.“
„Öll vinnsla á plötunni er því bara allt meðlimir hljómsveitarinnar. Við höfðum það sterka skoðun á því hvernig þetta ætti að hljóma og hvernig heildarmyndin átti að verða þannig að það var í rauninni það besta í stöðunni að gera þetta allt sjálf.“
Hann segir plötuna því vera nákvæmlega eins og þau hafi viljað að hún myndi hljóma og hún því í kjölfarið orðið mun persónulegri fyrir vikið.
Plötuna States of Mind má hlusta á í heild sinni hér að neðan.