Gullregn með níu Eddur

Sigrún Edda Björnsdóttir var verðlaunuð fyrir bestan leik í aðalhlutverki …
Sigrún Edda Björnsdóttir var verðlaunuð fyrir bestan leik í aðalhlutverki fyrir Gullregn.

Kvikmyndin Gullregn í leikstjórn Ragnars Bragasonar hlaut flestar Eddur, eða samtals níu, þegar verðlaun Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar (ÍKSA) voru afhent í fyrr í kvöld í sérstökum sjónvarpsþætti sem sýndur var á RÚV. Gullregn var meðal annars valin kvikmynd ársins, Ragnar Bragason verðlaunaður fyrir bæði handrit sitt og leikstjórn auk þess sem Sigrún Edda Björnsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir voru verðlaunaðar fyrir leik sinn í aðal- og aukahlutverki.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson var verðlaunaður fyrir bestan leik í aukahlutverki …
Þorvaldur Davíð Kristjánsson var verðlaunaður fyrir bestan leik í aukahlutverki fyrir Ráðherrann.

Næstflest verðlaun hlaut sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann, eða samtals þrenn. Ólafur Darri Ólafsson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson voru verðlaunaðir fyrir leik í aðal- og aukahlutverki auk þess sem þáttaröðin var valið besta leikna sjónvarpsefni ársins.

RAX Augnablik var valinn menningarþáttur ársins, en þar segir Ragnar …
RAX Augnablik var valinn menningarþáttur ársins, en þar segir Ragnar Axelsson ljósmyndari frá sögunum á bak við ljósmyndir sínar. mbl.is


RAX Augnablik var valinn menningarþáttur ársins, Ari Eldjárn Pardon My Icelandic skemmtiþáttur ársins, Já-fólkið stuttmynd ársins og A Song Called Hate heimildamynd ársins. Sjónvarpsþáttamaður ársins var valinn Helgi Seljan og frétta- og viðtalsþáttur ársins Kveikur. Heildarlistann má sjá hér fyrir neðan, en alls voru veitt 28 verðlaun.

Morðsaga Reynis Oddssonar var vorboði

Reynir Oddsson hlaut heiðursverðlaun ÍKSA í ár fyrir brautryðjandaframlag sitt til íslenskra kvikmynda og kvikmyndamenningar. Í umsögn sem Ásgrímur Sverrisson stjórnarmaður ÍKSA vann og lesin var upp í þættinum í gær kom fram að rætur þess sem kallað er Íslenska kvikmyndavorið liggi í gerjun sjötta og sjöunda áratugs síðustu aldar, þegar sjálfstæð, persónuleg og listræn sýn kvikmyndahöfunda var sett í öndvegi og kvikmyndin varð að listformi tuttugustu aldarinnar.

Reynir Oddsson hlaut heiðursverðlaun ÍKSA í ár fyrir brautryðjandaframlag sitt …
Reynir Oddsson hlaut heiðursverðlaun ÍKSA í ár fyrir brautryðjandaframlag sitt til íslenskra kvikmynda og kvikmyndamenningar.

„Reynir Oddsson var einna fyrstur til að koma með þessar nýju hugmyndir um kvikmyndina inní íslenskt samfélag. Þegar hann kom heim til Íslands í upphafi sjöunda áratugarins, eftir nám í leiklist og kvikmyndagerð í Los Angeles og London, blasti við honum nær ónumið land. Hugur hans stóð til að gera leiknar kvikmyndir en svigrúm var þröngt. Það varð því hlutskipti hans að ryðja brautina, þrýsta á um breytingar og leita lausna,“ sagði í umsögninni. Þar kemur fram að heimildamyndir Reynis á sjöunda áratuginum bera vitni sterkri tilfinningu fyrir kvikmyndamiðlinum, en þetta eru myndirnar Slys, Fjarst í eilífðar útsæ, Hernámsárin og Flug 401.

„Reynir var staðráðinn í að gera leikna mynd og 1975 lagði hann af stað í tökur á kvikmyndinni Morðsögu. Þá hafði frumvarp þingmannanna Ragnars Arnalds og Jóns Ármanns Héðinssonar um stofnun Kvikmyndasjóðs verið til umræðu á Alþingi í nokkurn tíma.

Morðsaga er samtímafrásögn um reykvíska úthverfafjölskyldu. Faðirinn er ráðríkur skapofsamaður sem girnist stjúpdóttur sína. Tilraunir dótturinnar til að losna undan ægivaldi föðurins leiða til skelfilegs uppgjörs. Myndin vakti geysilega athygli meðal landsmanna og aðsókn varð gríðarleg. Ári eftir frumsýningu myndarinnar var Kvikmyndasjóður Íslands loksins stofnaður og þannig gat regluleg framleiðsla kvikmynda hafist. Morðsögu má því kalla einskonar vorboða íslenskrar kvikmyndagerðar.“

Vinningshafar ársins 2021

  • Kvikmynd - Gullregn
  • Leikstjóri - Ragnar Bragason fyrir Gullregn
  • Handrit - Ragnar Bragason fyrir Gullregn
  • Leikkona í aðalhlutverki - Sigrún Edda Björnsdóttir fyrir Gullregn
  • Leikkona í aukahlutverki - Halldóra Geirharðsdóttir fyrir Gullregn
  • Leikari í aðalhlutverki - Ólafur Darri Ólafsson fyrir Ráðherrann
  • Leikari í aukahlutverki - Þorvaldur Davíð Kristjánsson fyrir Ráðherrann
  • Leikið sjónvarpsefni - Ráðherrann
  • Heimildamynd - A Song Called Hate
  • Stuttmynd - Já-Fólkið
  • Sjónvarpsmaður - Helgi Seljan
  • Frétta- eða viðtalsþáttur - Kveikur
  • Menningarþáttur - RAX Augnablik
  • Skemmtiþáttur - Ari Eldjárn Pardon My Icelandic
  • Barna- og unglingaefni - Stundin okkar
  • Mannlífsþáttur - Nýjasta tækni og vísindi
  • Íþróttaefni - Áskorun
  • Leikmynd - Heimir Sverrisson fyrir Gullregn
  • Búningar - Helga Rós V. Hannam fyrir Gullregn
  • Gervi - Áslaug Dröfn Sigurðardóttir fyrir Gullregn
  • Brellur - Filmgate, Guðjón Jónsson og Árni Gestur Sigfússon fyrir Ísalög
  • Klipping - Valdís Óskarsdóttir, Sigurður Eyþórsson og Guðlaugur Andri Eyþórsson fyrir Brot
  • Kvikmyndataka - Árni Filippusson fyrir Gullregn
  • Hljóð - Huldar Freyr Arnarson fyrir Brot
  • Tónlist - Högni Egilsson fyrir Þriðji póllinn
  • Upptöku- eða útsendingastjóri - Ágúst Jakobsson fyrir Ari Eldjárn Pardon My Icelandic
  • Sjónvarpsefni (almenningskosning á RÚV) - Steinda Con
  • Heiðursverðlaun - Reynir Oddsson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir