Íslenska kvikmyndin Dýrið, eða Lamb á ensku, var sjöunda tekjuhæsta kvikmyndin í bandarískum kvikmynda húsum um helgina. Alls seldust miðar fyrir rúmlega eina milljón bandaríkjadala eða um 150 milljónir íslenskra króna.
Dýrið var frumsýnd í Bandaríkjunum á fimmtudag og þá í hátt í 600 kvikmyndahúsum vítt og breitt um landið. Hún er fyrsta íslenska kvikmyndin til að fá slíka dreifingu í landinu og tekjuhæsta íslenska kvikmyndin í bandarískum kvikmyndahúsum.
Kvikmyndin er frumraun íslenska leikstjórans Valdimars Jóhannssonar en með aðalhlutverk fara Hilmir Snær Guðnason, Noomi Rapace og Björn Hlynur Haraldsson.
Dýrið kom nýtt inn á lista yfir miðasölu í kvikmyndahúsum um helgina ásamt James Bond myndinni No Time To Die. No Time To Die fór beint á topp listans en alls seldust miðar fyrir 56 milljónir bandaríkjadala á þá mynd.
Kvikmyndin var fyrst frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni í sumar og hlaut þar verðlaun fyrir frumleika sinn.