Íslenska kvikmyndin Dýrið hefur hlotið tilnefningu til European Discovery kvikmyndaverðlaunanna. Evrópska kvikmynda akademían tilkynnti í dag þær sex myndir sem tilkynntar eru í flokknum en verðlaunin eru hluti af Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem veitt eru árlega til leikstjóra með sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd.
Dýrið hefur farið sigurgöngu um heiminn undanfarin misseri. Kvikmyndin hlaut verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún var frumsýnd. Þá var hún frumsýnd í Bandaríkjunum í síðustu viku og var í 7. sæti yfir tekjuhæstu kvikmyndir í kvikmyndahúsum um liðna helgi. Yfir sex milljónir hafa horft á stiklu myndarinnar sem ekki síður hefur vakið athygli en myndin.