Loksins er líf farið að færast í tónleikahald að nýju. Fyrir fáeinum árum var töluvert úrval af áhugaverðum tónlistarhátíðum í boði fyrir tónlistarunnendur en staðan hefur breyst töluvert og af ýmsum ástæðum hefur framboðið dregist verulega saman. Extreme Chill-hátíðin á sér töluverða sögu þar sem tilraunakennd raftónlist hefur verið helsta áherslan. Hátíðin var haldin í ellefta sinn um síðustu helgi og dagskráin var metnaðarfull þar sem vel þekktir erlendir listamenn í þessum jaðargeira komu fram ásamt heimafólki.
Roger Eno var í Kaldalóni í Hörpu á föstudagskvöldinu og lék á flygil á meðan ljósmyndum hans af heimaslóðum var varpað á vegginn fyrir aftan hann. Það lá vel á karlinum og það var býsna hressandi að sjá mann á sjötugsaldri setjast við virðulegan flygil með tvo bjóra við höndina. Hann sökkti sér þó svo djúpt í að skapa hljóðmyndir að flöskurnar tvær voru ennþá fullar klukkustund síðar.
Tónlist Rogers – höldum okkur bara við fyrra nafnið til að rugla honum ekki saman við bróður hans Brian sem svo vill til að er einn allra áhrifamesti tónlistarmaður síðustu 50 ára – er lágstemmd og framvindan er yfirleitt hæg. Mögulega gæti einhver fundið ástæður til að tala illa um hana sem er algjör óþarfi enda er varla neitt nema gott að segja um fólk sem nýtir tímann sinn í að föndra við ljósmyndir og tónlist.
Borgar Magnason fylgdi í kjölfarið og óf saman afbragðsseið með kontrabassa og tölvu. Frábær tónlist þar á ferð. Síðasta atriði föstudagskvöldsins var svo samstarfsverkefni hjá norðlenska teknó-séníinu Bjarka, dansaranum Mathilde Cayers og vídeólistamanninum Arttu Nieminen sem bæði eru norsk. Verkefnið hlaut styrk frá Menningarráði Norðmanna en var leitt saman að frumkvæði forsvarsfólks Extreme Chill-hátíðarinnar og norsku hátíðarinnar Insomnia.
Ekki er hægt að segja annað en að bræðingurinn hafi heppnast vel. Ágeng, hvikul og marglaga raftónlist Bjarka smellpassaði við kuldalegan og súrrealískan myndheim Nieminens og það gaf henni líka aðra vídd að vera túlkuð af mjög færum dansara. Frábær viðburður sem augljóst var að fólk í salnum kunni vel að meta. Sjónræni þátturinn á tónleikum raftónlistarfólks er ávallt mikilvægur og var ekki síst það sem stendur upp úr eftir helgina.
Þegar komið var fram á laugardag og sunnudag færðist fjörið yfir á Húrra. Á laugardaginn sá ég meðal annars áhugaverða tónleika búlgarska gítardrón-meistarans E.U.E.R.P.I. Mesta eftirvæntingin var þó tvímælalaust fyrir því að sjá breska rafdúettinn Plaid sem hefur verið að í rúma þrjá áratugi og gefið út afbragðstónlist hjá W.A.R.P.-útgáfunni.
Plötusnúðurinn Mixmaster Morris og Skurken höfðu hitað salinn ágætlega upp þegar Plaid hóf leik á sunnudagskvöldinu. Aggressíf og taktföst tónlistin ásamt sjónrænu veislunni á bak við þá félaga hafði leitt salinn áfram í nokkra stund þegar það rann almennilega upp fyrir mér hversu mikill söknuðurinn hefur verið eftir viðburðum af þessu tagi. Þar sem lágu tíðnirnar gera alvöru atlögu að innyflunum og háu tíðnirnar skera mögulega örlítið af heyrninni. Ekki síst til að fylgjast með og vera hluti af mannlífinu sem er óvíða jafn litríkt og á raftónlistarhátíðum. Sjá gamla karla gleyma sér í dansi, eyrnalokka með app-stýrðum ljósum, bleikt hár, blátt hár, dreadlokka og barþjóna sem líta út fyrir að vera að koma af harkalegu fylleríi með Madonnu. Þessu sem gefur lífinu fleiri litbrigði. Extreme Chill-hátíðin hefur þroskast vel og mun vafalaust verða enn fyrirferðarmeiri í íslensku tónlistarlífi á komandi árum.