Leikkonan Kristín Pétursdóttir mun stýra þáttunum Make Up á Sjónvarpi Símans. Þættirnir verða sýndir eftir áramót en í þeim verður keppt í förðun.
Kristín útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur starfað sem leikkona síðan þá.
„Það koma inn keppendur og farða fyrirsætur eftir einhverju þema, sem getur verið allt frá dagförðun til „special effect“ förðunar og allt þar á milli. Það verða svo dómarar úr bransanum sem meta vinnuna hjá keppendum,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.
„Okkur fannst alveg tímabært að koma með svona þætti inn á íslenskan markað, en förðunarmyndbönd hafa auðvitað verið mjög vinsæl á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi erlendis,“ segir Kristín.
Þættirnir verða með leikjaþáttaívafi og slegið verður á létta strengi. Þeir eru ætlaðir öllum aldurshópum.
„Við vitum að það er aragrúi af förðunarsnilingum þarna úti sem eiga erindi í þáttinn og ég hvet öll þau sem vilja gera eitthvað meira úr þessu áhugamáli sínu að sækja um í þættina,“ segir Kristín.
Þau leita nú að keppendum í þáttinn en umsækjendur geta sótt um á makeup@siminn.is. Umsækjendur þurfa að senda inn nafn, kennitölu, mynd og af hverju þeir vilja vera með í þættinum. Alls munu sex keppendur vera valdir til að taka þátt.