Léttgeggjuð gráhærð „femme fatale“

Jacqueline Bisset ber aldurinn vel. Myndin er tekin fyrr í …
Jacqueline Bisset ber aldurinn vel. Myndin er tekin fyrr í haust. AFP

Breska leikkonan Jacqueline Bisset er enn í fullu fjöri, 77 ára, og fer mikinn í nýjum frönskum spennutrylli, The Lodger, þar sem hún blandar geði við lifandi fólk jafnt sem framliðna. 

Julie, ungur hjúkrunarfræðinemi, leigir herbergi á stóru sveitasetri með gotnesku ívafi í Frakklandi hjá vingjarnlegri eldri konu, Elizabeth, sem veit fátt skemmtilegra en að klæða sig upp og henda í sjálfan enska þjóðarréttinn steikar- og nýrnaböku. Allt gengur vel til að byrja með en tvær grímur renna á Julie þegar Elizabeth fer að tala um að eiginmanni hennar, Victor, þyki notalegt að hafa hana í húsinu og hafi haft sérstakt yndi af því þegar leigjandinn prófaði hattinn hans – svo lítið bar á. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir þær sakir að Victor hrökk upp af árið 1999. Elizabeth virðist ekki í minnsta vafa um að Victor sé enn á lífi og heldur uppi hrókasamræðum við fötin hans, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Í fyrstu lætur Julie sér þetta í léttu rúmi liggja en smám saman fer hugmyndin um Victor að sækja að henni enda fer hún í auknum mæli að finna fyrir návist hans, eins og ekkjan. Undarlegir hlutir fara að gerast og vinir Julie hvetja hana óspart til að flytja út úr húsinu – en er það þá um seinan?

Greinilega notið hlutverksins

Synd væri að segja að gamli góði spennutryllirinn sé í tísku í seinni tíð og þess vegna fagna ugglaust margir frönsku kvikmyndinni The Lodger (f. Messe Basse) en hún verður aðgengileg á stafrænum miðlum og gamla góða DVD frá og með morgundeginum. Ef þetta er ekki tilefnið til að dusta rykið af þeim merku græjum þá veit ég ekki hvenær það gefst.

Alice Isaaz, mótleikkona Bisset í The Lodger, er elsk að …
Alice Isaaz, mótleikkona Bisset í The Lodger, er elsk að hundum. AFP


Leikstjóri er Baptiste Drapeau en með aðalhlutverk fara Alice Isaaz og gamla kempan Jacqueline Bisset sem breska blaðið The Guardian segir í umsögn sinni um myndina vera í fantaformi sem léttgeggjuð gráhærð „femme fatale“ sem gengur um í bæklunarskóm með staf. „Bisset hefur greinilega notið þess að leika þetta hlutverk,“ segir í umsögn blaðsins. Síðan kemur sú áhugaverða fullyrðing að Drapeau sé hvorki að taka hatt sinn ofan fyrir Alfred Hitchcock né Claude Chabrol, heldur sé hann meira að votta Chabrol virðingu sína fyrir að hafa vottað Hitchcock virðingu sína. Þið skiljið hvað ég er að fara? Hvað sem þetta svo nákvæmlega þýðir.

Það er gaman að vita af Jacqueline Bisset í svona góðu formi en hún er orðinn 77 ára að aldri. Maður þarf alltaf reglulega að minna sig á að hún er ekki frönsk heldur bresk, fædd í Weybridge í Surrey árið 1944 og ólst upp í Tilehurst, nærri Reading í Berkshire, í húsi frá sautjándu öld. Sem skýrir eflaust margt. Móðir hennar var á hinn bóginn frönsk í aðra ættina og flúði hjólandi frá París undan nasistum í stríðinu og komst um borð í breskt fley sem sigldi með hana yfir Ermarsundið. Hún kenndi dóttur sinni að tala reiprennandi frönsku og fyrir vikið hefur Bisset birst okkur jöfnum höndum í frönsku- og enskumælandi myndum gegnum tíðina.

Lék Jóhönnu lærprúðu

Bisset ásamt ítölsku leikkonunni Valentina Cortese á Cannes-kvikmyndahátíðinni vorið 1973. …
Bisset ásamt ítölsku leikkonunni Valentina Cortese á Cannes-kvikmyndahátíðinni vorið 1973. Hún naut mikilla vinsælda og lék í þremur myndum það ár. AFP


Og tíðin er farin að teygjast í annan endann en Bisset kom fyrst fram í myndinni The Knack ... and How to Get It árið 1965. Lék þar fyrirsætu án þess að menn sæju ástæðu til að geta þess á kreditlistanum. Okkar kona þurfti ekki að hafa sérstaklega mikið fyrir því enda vann hún um tíma sjálf sem fyrirsæta til að geta borgað fyrir leiklistartímana sem hún sótti. Ári síðar fékk hún sitt fyrsta alvöruhlutverk í mynd, Cul-de-sac eftir Roman Polanski. Þá lék hún hina ógleymanlegu Giovönnu Goodthighs, eða Jóhönnu lærprúðu, í Bondsatírunni Casino Royal 1967, þar sem David Niven lék James Bond. Það var þó líklega Two for the Road, þar sem hún lék á móti Audrey Hepburn og Albert Finney, sem fyrst vakti athygli á Bisset á alþjóðavísu. Síðan kom The Sweet Ride, þar sem hún var tilnefnd til Gullhnattarins sem besti kvenkyns nýliði ársins. Lengi má halda áfram en látum nægja að nefna Airport og The Grasshopper (1970), Who Is Killing the Great Chefs of Europe? (1978), Under the Volcano (1984) og La Cérémonie (1995).

Bisset hefur verið virk fram á þennan dag og í síðasta mánuði var nýjasta mynd hennar, Birds of Paradise, frumsýnd í leikstjórn Sarah Adina Smith. Bisset lék í henni eftir að hún tók þátt í The Lodger.

Nánar er fjallað um The Lodger og Jacqueline Bisset í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Loka