Leikarinn Alec Baldwin skaut á fimmtudag úr byssu á kvikmyndasetti með þeim afleiðingum að kvikmyndatökumaður lést og leikstjóri særðist, að sögn yfirvalda í Nýju-Mexíkó. Talsmaður Baldwins segir að um slys hafi verið að ræða.
Samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglu í borginni Santa Fe kemur fram að Baldwin, sem var við tökur á kvikmyndinni Rust, hafi hleypt af skoti úr byssu sem notuð var við tökur. Baldwin leikur aðalhlutverk myndarinnar og er framleiðandi hennar.
Konan sem lést af skotsárum hét Halyna Hutchins og var kvikmyndatökumaður myndarinnar Rust. Hutchins var 42 ára gömul. Hún var flutt með sjúkraflugi á sjúkrahús og var þar úrskurðuð látin. Hutchins hefur verið sögð afar hæfileikarík í sínu fagi og var til að mynda sögð „kona á uppleið“ af tímaritinu American Cinematographer árið 2019. Eftir að fréttir af andláti Hutchins bárust hafa samúðarkveðjur til fjölskyldu hennar og yfirlýsingar um mikla sorg verið áberandi á samfélagsmiðlum.
„Ég er svo sorgmæddur yfir því að missa Halynu. Og svo reiður yfir því að þetta hafi getað gerst á setti,“ skrifaði leikstjórinn Adam Egypt Mortimer á Twitter. „Hún var mjög hæfileikarík.“
Þá særðist einnig leikstjóri myndarinnar, Joel Souza. Hann var fluttur með sjúkrabíl á heilbrigðisstofnun og þiggur hann þar meðferð við meiðslum sínum.
Lögreglumenn voru sendir á staðinn um tvöleytið þegar atvikið hafði verið tilkynnt til neyðarlínunnar. Samkvæmt yfirlýsingu lögreglunnar er rannsókn málsins opin og hefur enginn verið ákærður.
Juan Rios, talsmaður lögreglu, sagði í samtali við Guardian að Baldwin hefði að fyrra bragði komið og rætt við rannsóknarlögreglu. Eftir samtalið hefði hann yfirgefið staðinn.
Framleiðsla Rust hefur verið stöðvuð í bili.
Fréttin hefur verið uppfærð