Leikarinn James Gandolfini, sem fór með aðalhlutverk í þáttunum The Sopranos, lét ekki spila með sig og stappaði niður fætinum þegar honum fannst eitthvað óþægilegt eða ógeðslegt við tökur á þáttunum.
The Sopranos voru sýndir á árunum 1999 til 2007 og fór Gandolfini með hlutverk Tony Soprano. Gandolfini lést árið 2013.
Í bókinni Tinderbox: HBO's Ruthless Pursuit of New Frontiers segir höfundur bókarinnar, James Andrew Miller, frá því hvernig Gandolfini trylltist yfir senu sem hann átti að leika í. Í senunni átti hann að fróa sjálfum sér inni á baðherbergi á bensínstöð. Vulture birti kafla úr bókinni.
Þrátt fyrir mótmælin lék hann í senunni en hún var síðar klippt út úr lokaútgáfu þáttarins. Lýsingar Millers passa við það sem Gandolfini hafði sagt um þættina í viðtölum en hann hafði meðal annars sagt að hann færi oft í sturtu eftir tökur því honum liði skítugum.
„Gandolfini tók stundum tryllinginn yfir ákveðnum senum í stað þess að spyrja hvort hann þyrfti að gera þetta. Hann spurði frekar upphátt hvað í andskotanum þetta væri og harðneitaði svo að taka þátt í senunum,“ skrifaði Miller.