Fall kommúnismans eða blæðingar?

Elddansinn stiginn. Simon Le Bon í Laugardalshöll fyrir tveimur árum.
Elddansinn stiginn. Simon Le Bon í Laugardalshöll fyrir tveimur árum. Haraldur Jónasson/Hari

Hvað í ósköpunum voru Íslandsvinirnir ljúfu í Duran Duran að fara með brag sínum New Moon on Monday árið 1984? Sú spurning hlýtur að brenna á öllum hugsandi mönnum. Því miður virðist enginn vita það með vissu.

Nýtt tungl hlýtur þó að teljast jákvætt, ekki síst þegar í framhaldinu er stiginn elddans fram á rauða nótt. Einhverjir ganga meira að segja svo langt að halda því fram að þarna hafi Simon Le Bon verið að spá kommúnismanum í Austur-Evrópu dauða og bjartri tíð eftir það. Munið þið hvort Berlínarmúrinn féll á mánudegi? Kenningin er í öllu falli góð.

Önnur kenning er sú að kærasta sögumanns hafi einfaldlega verið að hafa á klæðum. Hann varði jú köldum degi með einmana gervitungli; það er þurfti að híma hundfúll fyrir framan imbakassann frekar en að gera þið vitið hvað …

Mánudagar eru manískir hjá Súsönnu Hoffs.
Mánudagar eru manískir hjá Súsönnu Hoffs. AFP


Var að kyssa sjálfan Valentínó

Mánudagar hafa orðið mörgum poppurum að yrkisefni gegnum tíðina – sjaldnast þó af góðu, samanber I Don’t Like Mondays, Blue Monday, Stormy Monday og Manic Monday. 

Hvað með til dæmis aumingja Súsönnu Hoffs í The Bangles sem var að kyssa sjálfan Valentínó í kristalsbláu flæðarmálinu á Ítalíu þegar bannsett vekjaraklukkan hringdi á slaginu sex? Og hvaða dagur var? Jú, enn einn manískur mánudagur og hún varð að drattast á fætur til að hafa fyrir salti í grautinn. „Ég vild’ða væri sunnudagur,“ söng hún seiðandi röddu í Manic Monday 1986, „því að hann er fagur.“ Í ofboðslega lauslegri þýðingu. Ekki bætti úr skák að hún var sein fyrir og hefði ekki nægt að hafa flugvél til að mæta í vinnuna á réttum tíma. Dæmigerður mánudagur, maður!

Hóf skothríð fyrir utan barnaskóla

Þessar raunir eru þó hjómið eitt samanborið við það sem gengur á í líklega frægasta mánudagslagi allra tíma, I Don’t Like Mondays með sjálfum Sir Bob Geldof og írska rokkbandinu Boomtown Rats. Það byggist á sönnum atburðum en 29. janúar 1979 hóf sextán ára stúlka, Brenda Ann Spencer, skothríð fyrir utan barnaskóla í San Diego í Bandaríkjunum og myrti tvo fullorðna og særði átta börn og einn lögreglumann. Hún var tekin höndum en sýndi enga iðrun. Spurð hvað henni hefði gengið til yppti Spencer bara öxlum og svaraði: „Ég kann ekki að meta mánudaga. Þetta lífgaði upp á daginn.“

Sir Bob Geldof byggði smell sinn I Don't Like Mondays …
Sir Bob Geldof byggði smell sinn I Don't Like Mondays á sönnum atburðum. AFP


Lagið kom út þá um sumarið og var umdeilt. Fjölskylda Spencers reyndi meðal annars að koma í veg fyrir útgáfuna. Síðar fékk Geldof bréf frá Spencer sjálfri, þar sem hún þakkaði honum fyrir lagið; það hefði gert hana heimsfræga. „Með því er ekki gaman að lifa,“ sagði hann. Spencer er 59 ára í dag og situr enn í fangelsi. Geldof er auðvitað frægastur sem upphafsmaður Live Aid-tónleikanna. 

Þriðjudagar alveg eins slæmir

Ekki er Stormy Monday með The Allman Brothers Band frá 1971 til þess fallið að hressa okkur við. Í textanum segir: „Þeir tala um stormasama mánudaga en þriðjudagar eru alveg eins slæmir. Guð og miðvikudagar eru ennþá verri. Og fimmtudagar ömurlegir.“
Svona, svona, bræður!

Aðeins lifnar yfir þeim eftir það; örninn flýgur á föstudögum og á laugardögum fara þeir út að leika sér. Enda svo í kirkju á sunnudögum. Amen!

Nánar er fjallað um dægurlög með mánudag í titlinum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup