Trommuleikarinn Travis Barker hefur nú látið hylja gömul húðflúr sem helguð voru fyrrverandi eiginkonu hans, Shönnu Moakler, á sínum tíma. Ástarsaga trommuleikarans og raunveruleikastjörnunnar, Kourtney Kardashians, hefur verið mikið í deiglunni upp á síðkastið en þau trúlofuðu sig fyrr í þessum mánuði.
Samkvæmt frétt frá PageSix lét Barker listamanninn Scott Campell hanna og vinna húðflúrin og varð stór sporðdreki fyrir valinu ásamt mótuðum útlínum af vörum tilvonandi eiginkonunnar, Kourtney Kardashian.
Hafði Barker fengið hana til þess að að kyssa á blað með svörtum varalit, sem síðan var svo notað sem stensill. Barker var ekki að flúra sig í fyrsta sinn heldur þvert á móti. Eins og bersýnilegt er, er líkami hans þakinn húðflúrum frá toppi til táar.
Barker er sjálfur fæddur í merki sporðdrekans og á því afmæli von bráðar, eða hinn 14. nóvember næstkomandi. Stjörnumerkið notaði hann því til þess að hylja yfir gamalt hjarta sem innihélt nafn fyrrverandi eiginkonu sinnar en varir Kardashian marka nýtt upphaf og ný ævintýri líkt og sjá má á Instagram-síðu hans.