Hanna María Karlsdóttir og Ólafur Örn Thoroddsen voru gerðir að heiðursfélögum Leikfélags Reykjavíkur á aðalfundi þess í gær.
Fram kemur í tilkynningu að þau hafi verið mikilvægir þátttakendur og áhrifavaldar í sögu leikfélagsins.
Ferill Hönnu Maríu hjá Leikfélagi Reykjavíkur spannar hátt í fjóra áratugi og á þeim tíma lék hún yfir 75 hlutverk, meðal annars í Jóa, Djöflaeyjunni, Þrúgum reiðinnar, Dómínó, Mávahlátri, Öndvegiskonum, auk þess sem hún leikstýrði einleiknum Sigrúnu Ástrós sem gekk í þrjú leikár á Litla sviði Borgarleikhússins.
Hanna María hlaut Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki árið 2005 fyrir hlutverk sitt í Héra Hérasyni og tilnefningu fyrir hlutverk sitt í Degi vonar 2007.
Ólafur Örn var um langt skeið einn af hornsteinum Borgarleikhússins og einn helsti hljóðhönnuður Leikfélags Reykjavíkur, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Hann réðst til Leikfélags Reykjavíkur við opnun Borgarleikhússins árið 1989. Fyrsta verkefni hans þar var hljóðhönnun í verki Ólafs Hauks Símonarsonar, Kjöt, í janúar 1990 en síðan þá hefur hann unnið við fjölda sýninga hússins. Má þar nefna Einhver í dyrunum, Öndvegiskonur, Boðorðin 9, Híbýli vindanna, Woyzeck, Ófagra veröld, Amadeus, Dauðasyndirnar, Harry og Heimir, Nei ráðherra, Jesú litli og Hús Bernhörðu Alba. Fyrir þá sýningu var Ólafur tilnefndur til Grímunnar fyrir hljóðhönnun.