Kunnur bandarískur píanóleikari, Ben Waters, kemur fram á þrennum tónleikum hér á landi á næstu dögum, með íslenskum meðleikurum, en hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa starfað með meðlimum Rolling Stones, í hljómsveitum Ronnies Woods og Charlies Watts.
Waters kemur fyrst fram annað kvöld, fimmtudagskvöld, á Dillon og hefjast leikar kl. 21. Þá verða aðaltónleikarnir í Húsi Máls og menningar, Laugavegi 18, á föstudagskvöld kl. 20. Waters verður líka sérstakur gestur á Guitarama-tónleikum Björns Thoroddsens í Bæjarbíói í Hafnarfirði á laugardag.
Ben Waters er mjög afkastamikill tónlistarmaður og ekki síst þekktur fyrir kraftmikinn boogie-woogie-píanóleik og söng. Eins og fyrr segir hefur hann átt í miklu samstarfi við meðlimi Rolling Stones. Hann leikur í hljómsveits Ronnies Woods, Wild Five, en sveitin hefur sent frá sér tvær plötur. Þá fór hann í margar tónleikaferðir með hljómsveit Charlies Watts, A,B,C & D of Boogie-Woogie. Um þessar mundir vinnur Ben Waters að verkefni með gítarhetjunni Jeff Beck. Þess má líka geta að hann er tíður gestur í hinum vinsæla tónlistarþætti Jools Hollands á BBC.