Elísabet II Bretlandsdrottning mun hér eftir ekki sinna störfum á vegum krúnunnar einsömul. Drottningin dvaldi eina nótt á sjúkrahúsi í síðustu viku samkvæmt ráðleggingum lækna sinna.
Það er The Telegraph sem greinir frá þessu og hefur eftir heimildamanni að aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar muni hér eftir fylgja drottningunni á alla viðburði. Þá verða öll störf skipulögð þannig að aðrir meðlimir geti hlaupið í skarðið ef ske kynni að hin 95 ára drottning þyrfti að hvíla sig.
Breska konungshöllin hefur lítið gefið upp um heilsu drottningarinnar undanfarnar vikur. Hún sneri aftur til starfa á föstudag og hefur unnið smávægilega vinnu heima í Windsor-kastala. Hennar hátign mætti ekki til guðsþjónustu á sunnudag, en hún fer reglulega í kirkju á sunnudögum.