Íslensku crossfitkeppendurnir Katrín Tanja Davíðsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir, Þuríður Erla Helgadóttir og Björgvin Karl Guðmundsson hefja leik á Rouge boðsmótinu í Austin í Texas í Bandaríkjunum á morgun.
Um er að ræða boðsmót á vegum íþróttavörufyrirtækisins Rouge og var aðeins bestu íþróttamönnum í heiminum boðið á mótið. Alls fengu 20 konur boð og 20 karlar. Einn tíundi af keppendum er því frá Íslandi.
Íslensku keppendurnir hafa náð gríðarlega góðum árangri í Crossfit undanfarin ár og einnig á heimsleikunum sem fóru fram í lok júlí. Þar vakti árangur Annie Mist heimsathygli en hún hreppti 3. sætið í kvennaflokki. Þá voru aðeins ellefu mánuðir liðnir síðan Annie fæddi dóttur sína í heiminn.
Keppt verður í sjö greinum í bæði karla og kvennaflokki. Á föstudag fara tvær greinar fram, á laugardag þrjár og á lokadeginum eru tvær greinar undir.
Fyrstu sex greinarnar hafa verið tilkynntar og hafa þær allar fengið nöfn. Á morgun eru Goruk og Bella Complex á dagskránni. Í Goruk þrautinni þurfa keppendur að toga hjólbörur, lyfta trjábol, klifra í kaðal, ganga með sandpoka og ýta hjólbörum.
Í seinni þrautinni eru lyftingar á dagskrá. Þá þurfa keppendur að finna sína þyngstu lyftu í einni samsetningu af jafnhendingu, axlarpressu, hnébeygju og axlarpressu.
Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu frá keppninni á YouTube-rás Rouge Fitness. Á morgun hefst útsending klukkan 16:15.