Enn getur komið til þess að ákærur verði gefnar út vegna dauða Halyna Hutchins á tökustað kvikmyndarinnar Rust. Þetta segja lögregluyfirvöld í Nýju-Mexíkó.
Hollywood-leikarinn Alec Baldwin skaut Hutchins óvart með byssu sem hann kveðst hafa haldið að væri ekki hlaðin, eða í það minnsta örugg.
Lögregla segir að hægt sé að gera ýmsar aðfinnslur við öryggisráðstafanir á tökustað.
„Allir möguleikar eru á borðinu,“ hefur BBC eftir Mary Carmack-Altwies héraðssaksóknara. „Það er ekki búið að útiloka einn né neinn að svo stöddu,“ bætir hún við.
Lögregla hefur nú lagt hald á 600 muni er teljast til sönnunargagna enn sem komið er, þar af eru þrjú skotvopn og 500 byssukúlur.