Adam Levine, söngvari hljómsveitarinnar Maroon 5, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þau viðbrögð sem hann sýndi þegar aðdáandi stökk upp á svið til hans um liðna helgi. Hljómsveitin Maroon 5 tróð upp á góðgerðartónleikum á vegum Hollywood Bowl á síðastliðið laugardagskvöld, þegar atvikið átti sér stað.
Tónleikagesturinn stökk upp á sviðið og tók utan um Levine á meðan hann hélt áfram að syngja lagið sem hljómsveit hans spilaði. Var aðdáandinn gripinn fljótt niður af sviðinu af öryggisvörðum en í sömu anddrá virtist hrollur fara um Levine. Honum var ekki skemmt.
Myndskeið af atvikinu náðist og hefur það farið um eins og eldur í sinu vítt og breytt um samfélagsmiðla síðustu daga. Hafa netverjar skipst á skoðunum um atvikið og gagnrýnt söngvarann fyrir skort á háttvísi gagnvart aðdáendum sínum.
Levine sá sig knúinn til þess að gera grein fyrir þessum óheppilegu viðbrögðum og brá hann á það ráð að ávarpa aðdáendur sína í gegnum sögu á Instagram. E! News greindi frá.
„Mig langar að tala við ykkur um atvikið á Hollywood Bowl þegar aðdáandi kom upp á svið til mín. Ég hef alltaf verið sá sem virðir, dýrkar og dáir aðdáendur okkar. Án aðdáenda þá hefðum við ekki vinnu, við værum ekki að gera það sem við erum að gera. Ég lít ekki niður á aðdáendur okkar, það er bara ekki ég,“ sagði Levine. „Mér vissulega brá þegar aðdáandinn kom upp að mér og þegar maður er hræddur þá bregst maður alls konar við. Ég þurfti að hrista þetta af mér og halda áfram að vinna vinnuna mína.“
Levine vonaðist eftir fullum skilningi frá aðdáendum sínum eftir að hann útskýrði mál sitt og gaf þeim fingurkoss í lokin.
Myndskeið af atvikinu má sjá hér að neðan.