Hönnunarverðlaun Íslands fyrir árið 2021 voru afhent við hátíðlega athöfn í Grósku í gær og hlutu þau grafíski hönnuðurinn Sigurður Oddsson, myndhöggvarinn Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðurinn Gabríel Benedikt Bachmann fyrir verkefnið Hjaltalín - 8, hljómplötu hljómsveitarinnar Hjaltalín sem ber titilinn 8.
Segir í tilkynningu að um sé að ræða „tímalaust tímamótaverk í myndrænni og þrívíðri nálgun“ og að við hönnun plötunnar hafi Sigurður, grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi verksins, velt upp hugmyndum um varanleika og hlutgervingu tónlistar í samtali og samvinnu við myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðinn Gabríel Benedikt Bachmann.
„Í meðförum teymisins er hljóðheimur sköpunar hlutgerður sem úlfabarn, höggmynd úr basalti sem er jafnframt teiknuð og vistuð í þrívíðu stafrænu formi til þess að hámarka endingartíma og auðvelda birtingarmynd þess á ólíkum miðlum. Úlfabarninu er ætlaður endanlegur hvílustaður hjá Úlfarsfelli, sem þrívíður minnisvarði um tilvist útgáfunnar, sem nær langt umfram þá sem tíðkast hefur í plötuútgáfu til þessa,“ segir í tilkynningu og að það sé mat dómnefndar verðlaunanna að hönnun plötuumslags og heildarútfærsla 8 sé einstaklega sterkt heildrænt verk og metnaðarfullur minnisvarði um samspil tónlistar og hönnunar til framtíðar.
Heiðursverðlaunahafi ársins er Gunnar Magnússon, húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt og tóku afkomendur hans á móti verðlaunum fyrir hans hönd þar sem hann átti ekki heimangengt.
Í umsögn dómnefndar segir að höfundareinkenni Gunnars séu fögur form og næmni fyrir efnisnotkun í bland við notagildi og vandaða smíð, snilldarlausnir sem byggi á einfaldleika og virðingu fyrir efninu. Verk Gunnars eru sögð auðþekkjanleg, geometrísk form áberandi og gleði og leikur skíni gjarnan í gegn. Yfir fjörutíu ára starfsferill Gunnars spannar afar fjölbreytt verk að umfangi og skala og má af einstökum verkum nefna skákborðið sem hann hannaði fyrir einvígi Fischer og Spasskíj árið 1972. Gunnar hefur tekið þátt í fjölda sýninga og unnið til alþjóðlegra verðlauna á farsælum ferli sínum.
Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun var einnig veitt í gær og hlaut hana fyrirtækið CCP Games sem hefur gefið út margverðlaunaða fjölspilunarleiki á borð við EVE Online og Dust 514.