Bandaríski leikarinn Alec Baldwin segir að dauði kvikmyndagerðarkonunnar Halyna Hutchins hafi verið skelfilegt slys og væri atvik sem væri „einn á móti billjón“ að gæti gerst.
Hutchins lést þegar alvöru skot hljóp úr leikmunabyssu við gerð kvikmyndarinnar Rust 21. október.
Baldwin og Hilaria, eiginkona hans, ræddu stuttlega við fréttamenn sem sátu fyrir þeim í Manchester í Vermont-ríki í Bandaríkjunum. Þetta er í fyrsta sinn sem Baldwin tjáir sig um atvikið í samtali við fjölmiðla vestra.
Hann hafði áður birt færslu á Twitter þar sem hann lýsti því yfir að hann væri miður sín vegna slyssins og að hann væri að aðstoða lögreglu í tengslum við málið.
„Hún var hluti af fjölskyldunni minni,“ sagði Baldwin í myndskeiði sem TMZ hefur birt.
„Það eru einstaka slys sem gerast á tökustöðum endur og eins, en ekkert í líkingu við þetta. þetta er atvik sem er einn á móti billjón [að geti gerst].“
Í kjölfar atviksins hafa fjölmargir kallað eftir því að betur verði staðið að því hvernig vopn eru meðhöndluð á tökustöðum við gerð Hollywood-kvikmynda. Baldwin kvaðst viljugur til að taka þátt í þeirri umræðu en hann gat ekki sagt til um það hvort hann myndi nota skotvopn aftur við gerð kvikmynda.
Eftir slysið var ákveðið að hætta allri vinnu við gerð kvikmyndarinnar og nú hefur verið ákveðið að sú vinna muni ekki halda áfram.
Baldwin, sem er framleiðandi myndarinnar og aðalleikari, skaut alvöru byssukúlu úr Colt .45 skammbyssu þegar hann var að æfa atriði við gerð Rust. Kúlan hæfði Hutchins og fór einnig í öxlina á Joel Souza, leikstjóra myndarinnar. Hutchins lét lífið af sárum síðun en Souza var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, en hann hefur verið útskrifaður.
Aðstoðarleikstjóri myndarinnar hafði tjáð Baldwin fyrir slysið að byssan væri „köld“ sem þýðir að hún væri ekki með alvöru byssukúlum. Baldwin vildi ekki tjá sig frekar um rannsókn málsins.
Starfsmaður sem hafði yfirumsjón með öllum vopnum sem notuð voru við gerð myndarinnar, sagði í yfirlýsingu í gær að hún hefði enga hugmynd hvaðan byssukúlurnar kæmu. Yfirlýsingin birtist eftir að umræða hafði staðið yfir í nokkra daga um að öryggismál hefðu verið í ólestri við gerð myndarinnar.
Baldwin sagði að þegar hann kom til Santa Fe í Nýju-Mexíkó, þar sem upptökur fóru fram, þá hefði hann boðið Hutchins og Souza út að borða.
„Við vorum virkilega gott teymi sem voru að taka upp mynd saman og svo gerist þessi hræðilegi atburðu,“ sagði Baldwin.
Hann sagði ennfremur frá því þegar hann hitti eiginmann Hutchins og son sem væru „yfirbugaðir af sorg.“