Lynda Carter er 70 ára og heldur sér vel. Margir kannast við hana sem hina upprunalegu undrakonu (Wonder Woman) úr samnefndum sjónvarpsþáttum sem nutu vinsælda á áttunda áratugnum. Á þeim tíma var henni sagt að enginn hefði áhuga á að horfa á konu í sjónvarpinu en hún var fljót að afsanna þá kenningu.
Carter giftist lögfræðingnum Robert Altman og eignuðust þau tvö börn. Altman lést í febrúar á þessu ári sem var henni mikið áfall. Í viðtali við People magazine segist Carter nú standa á tímamótum í lífi sínu.
„Í næsta kafla lífs míns vil ég læra betur hver ég er. Það er mjög ógnvekjandi. Ég veit ekki hver ég er án Róberts,“ segir Carter. „Þetta tekur enn á, ég bara trúi ekki að ég hafi misst hann.“
Við andlát manns síns til 37 ára ákvað Carter að helga sig tónlistinni og heiðra um leið minningu hans. „Þetta var alvöru rómantík. Með tónlistinni er ég að reyna að skilgreina ást og missi og passa að þetta snúist um hið mannlega.“
„Við fórum saman í gegnum hæðir og lægðir. Aldrei hafði ég áður upplifað ást og stuðning líkt og ég gerði með honum,“ segir Carter sem stóð með honum þegar hann var sakaður um svik árið 1992. Þá hvatti hann hana að fara í meðferð þegar ljóst var að hún ætti í vanda með áfengi. Nú hefur hún verið í bata í 27 ár. „Robert studdi mig í batanum. Það eina sem hann vildi var að ég væri heilbrigð og hamingjusöm.“
Þá segir hún hann hafa veitt sér mikinn stuðning þegar hún kom fram með sína Me-too reynslu. Þegar hún var ung leikkona að reyna fyrir sér í Hollywood var hún áreitt af manni sem hún kýs að nefna ekki og vill ekki fara út í smáatriði. „Ég veit ekki hvort það sé gott fyrir mig. Mér finnst enn eins og ég eigi að hafa vitað betur, en hvernig gat ég vitað? Þetta er langt síðan.“
Auk tónlistarinnar á leiklistinn enn stað í hjarta Carter. Næst mun hún birtast í kvikmyndinni The Cleaner sem skarta þeim Shelley Long og Luke Wilson.