Leikarinn Kal Penn er þekktur fyrir hlutverk í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum á borð við House, Designated Survivor og Harold og Kumar. Hann er minna þekktur fyrir einkalífið og kom það mörgum á óvart um helgina þegar hann greindi frá að hann ætti unnusta að nafni Josh.
Penn greinir frá sambandinu og trúlofuninni í bókinni You Can't Be Serious að því fram kemur á vef People. Penn og Josh hafa verið saman í 11 ár. „Ég er mjög spenntur að segja lesendum frá sambandinu,“ segir Penn og segir foreldra sína, bróður og Josh ekki kunna vel við sviðsljósið.
Hann bjóst ekki við að falla fyrir Josh eftir fyrsta stefnumótið. Josh mætti með bjór heim til hans og kveikti á kappaksturskeppni í sjónvarpinu. „Þetta á augljóslega ekki eftir að ganga,“ hugsaði stjarnan með sér á sínum tíma. Fljótlega fór Penn að horfa á kappakstur með kærastanum á sunnudögum og þeir eru enn saman í dag.
„Ég uppgötvaði kynhneigð mína frekar seint á lífsleiðinni miðað við margt annað fólk,“ sagði Penn og benti á fólk áttaði sig á kynhneigð sinni á mismunandi aldri. „Ég er glaður að ég gerði það þegar ég gerði það.“
Auk þess að kynna bókina er Penn að skipuleggja brúðkaup. „Ég er augljóslega trúlofaður manni og fjölskyldur okkar munu mæta í brúðkaupið. Stóra deilumálið er hvort það verður stórt brúðkaup eða pínulítið brúðkaup. Mig langar í ristastórt indverskt brúðkaup. Josh, hatar athygli,“ segir Penn sem segir að þeir þurfi að mætast á miðri leið.