Fyrirsætan og fyrrverandi kærasta tónlistarmannsins Marilyn Mansons, Ashley Morgan Smithline, segir það hafa valdið sér mikilli vanlíðan að sjá fréttir af Manson í kristilegri sunnudagsþjónustu hjá Kanye West um liðna helgi.
Morgan og Manson áttu í slitróttu ástarsambandi um tveggja ára skeið en að sögn Morgan gekk margt misjafnt á í sambandi þeirra. Hefur hún sakað Manson um að hafa beitt sig andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi á meðan á sambandi þeirra stóð.
„Þetta fyllir mig af viðbjóði,“ sagði Morgan í viðtali við fréttamiðilinn People. „Hvernig getur þetta verið heimurinn sem við lifum í?“ undrar hún sig á. „Þetta er eins og að verða aftur fyrir áfalli,“ sagði ún jafnframt. Hefur hún verið að eiga við áfallastreituröskun eftir misþyrmingarnar sem hún hefur orðið fyrir af völdum Mansons.
Ashley Morgan Smithline er ekki eina konan sem hefur stigið fram og sakað Manson um ofbeldi. Hafa fjórar aðrar fyrrverandi kærustur hans opnað sig um ógeðfellda framkomu af hans hálfu en hann hefur neitað öllum ásökunum.
„Ég lifði þetta skrímsli af,“ er meðal annars sem Morgan sagði fyrr á árinu þegar hún steig fram og sagði sína sögu í People.
Þríeykið, Kanye West, Justin Bieber og Marilyn Manson, var saman komið síðastliðinn sunnudag við kristilega guðþjónustu á heimili Kanye West. Sunnudags guðsþjónustan var sýnd í beinni útsendingu í fyrsta skiptið í 18 mánuði.
Hafa þeir West og Bieber hlotið töluverða gagnrýni sökum þess að þeir þykja styðja við og standa með ofbeldismanninum Manson. Er þetta einn af fáum viðburðum sem Manson hefur tekið þátt í eftir að meintir þolendur sökuðu hann opinberlega um að hafa brotið gegn sér.