Hlaðvarpsþátturinn Besta platan verður í aðalhlutverki á öðrum viðburði Hljóðkirkjunnar í vetur, sem fram fer á Húrra á morgun, fimmtudag. Þar munu þáttastjórnendurnir, þeir Arnar Eggert Thoroddsen, Baldur Ragnarsson og Haukur Viðar Alfreðsson, fara yfir sögu bandarísku rokksveitarinnar Soundgarden og reyna að komast að niðurstöðu um það hver besta plata hennar sé.
Fyrsti viðburðurinn fór fram í október þar sem þeir Baldur og Flosi Þorgeirsson, sem stýra saman hlaðvarpinu Draugar fortíðar, ræddu villta vestrið.
Hlaðvarpsþátturinn Besta platan er orðinn einn af hornsteinunum í íslenskri tónlistarumfjöllun. Yfir 100 plötur á jafnmörgum vikum og hatrammar umræður í viku hverri, bæði við hljóðnemana sem og á heimasvæði hlustenda þáttarins á Facebook, Besta platan – Umræðuhópur. Með þessu fyrirkomulagi býðst hlustendum að taka beinan þátt og því er þetta tilhlökkunarefni.
Viðburðurinn hefst tímanlega klukkan 20:00. Húsið opnar þó klukkan 19:00 og þá verða græjurnar notaðar til þess að hita upp, að sjálfsögðu með Soundgarden. Miðasalan fer fram á Tix.is.
Viðburðurinn er númer 2 í viðburðarröðinni Hljóðkirkjan & Áhorfendur sem fram fara á Húrra fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði.