Candace Bushnell gerði garðinn frægan með bók sinni um Beðmál í borginni. Í kjölfarið komu sjónvarpsþættir sem slógu í gegn og nú er verið að framleiða framhaldsþáttaröð, And Just Like That. Í viðtali við The Times segist Bushnell ekki vera forrík eftir ævintýrið.
„Ha! Nei, það er ég ekki. Ég „googla“ stundum virðið mitt á netinu og talan sem kemur upp er svo fjarri lagi að það er ekki fyndið. Fólk heldur að listamaður verði forríkur ef verk hans rati í sjónvarpið. Raunveruleikinn er hins vegar sá að þetta eru bara viðskipti. Í geiranum er fólk sem græðir peningana og ef það vill ekki gefa þér hlut af gróðanum þá gerir það það ekki. Ég þekki svo marga ríka karla. En þekki í raun ekki margar ríkar konur sem eignuðust fjármunina sjálfar. Kannski bara Martha Stewart,“ segir Bushnell sem er 62 ára.
Nú vinnur Bushnell að því að setja upp leikrit byggt á annarri bók sinni Is There Still Sex in the City. Sú bók fjallar um líf hennar þegar hún stóð frammi fyrir því að finna ástina að nýju eftir sambandsslit við ballettdansarann Charles Askegard.
Bushnell segist alltaf hafa haft dálæti á persónunni Samönthu en hún verður ekki með í nýjustu þáttaröðinni.
„Ég elska Kim sem lék Samönthu, hún er stórkostleg manneskja. Fólk gerir það sem það þarf að gera. Ég virði hennar ákvörðun og það að hún stóð með sjálfri sér og sagðist ekki vilja taka þátt. Því um var að ræða stórar fjárhæðir og kona þarf að sjá um sig. Á endanum réð listrænt sjónarmið og henni fannst þetta ekki henta henni.“
Spurð um leitina að ástinni segist Bushnell vera í góðum gír og ánægð með að hafa ekki átt börn.
„Ég veit ekki einu sinni hvort ég er að leita að einhverjum. Á þessum tímum hef ég ekki áhuga á að vera með einhverjum tuttugu árum yngri. Ég sé ekki eftir að hafa ekki átt börn. Þegar ég var yngri voru allir að reyna að sannfæra mig um að eignast börn því þau voru að því,“ segir Bushnell að lokum sem er sátt við hundana sína tvo.